148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um mikilvægi þess samtals sem á sér stað á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins af því að hér á sér líka stað ákveðin opinber stefnumótun sem mér finnst vera til fyrirmyndar. Hér koma þingmenn og vekja máls á stefnumótun er tengist lýðháskólum.

Það er alveg rétt sem fram kemur að það er mjög brýnt að við í ráðuneytinu komum með skýr svör varðandi framhaldið þannig að hægt sé að þróa þessa starfsemi og að við, framkvæmdarvaldið, sjáum til þess að við komum með frumvarp sem styrkir eða býr til lagalega umgjörð um lýðháskóla þannig að það sé skýrt í hvaða átt við erum að fara. Ég held að þetta geti komið mjög vel út.

Svo verðum við líka að horfa til þess að ein af stærstu áskorununum sem við stöndum frammi fyrir er hið mikla brotthvarf úr námi, sér í lagi hjá ungum drengjum, sem segir okkur að við þurfum að auka fjölbreytileika í námsvali. Annar hv. þingmaður lýsti för sinni til Taílands og sagði að hún hefði veitt honum hvatningu til þess að fara í frekara nám og nálgast þær áskoranir sem hann stóð annars frammi fyrir í hefðbundnu íslensku skólakerfi. Það er auðvitað líka innblástur fyrir þá sem bjóða upp á annars konar nám og getur verið frekari hvatning til þess að viðkomandi aðilar sjái fram á nýjar brautir er varðar námsval eða nýjar leiðir er tengjast því sem þeir ætla að velja sér í lífinu.

Ég held að þessi umræða og þróunin er varðar lýðháskóla sé löngu tímabær. Að mörgu leyti er það svolítið sérstakt að við séum ekki komin lengra á Íslandi varðandi lýðháskóla, því að þegar verið var að móta menntastefnu hér í upphafi síðustu aldar var mikið horft til (Forseti hringir.) lýðháskóla á hinum Norðurlöndunum. Þetta er því mikið fagnaðarefni.