148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

heilbrigðisáætlun.

196. mál
[17:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn sem beinir sjónum okkar að heilbrigðismálum og skipulagi þeirra. Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör.

Við þurfum ekki enn eina áætlunina, herra forseti. Við þurfum stefnu í heilbrigðismálum sem vísar okkur veginn markvisst áfram, eins konar leiðarkort og áttavita, þar sem þjónustan er vel skilgreind, þar sem markmið eru sett og þar sem hægt er að mæla og fylgjast með hvort markmiðum sé náð. Ný og glóðvolg skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út í morgun er hrópleg staðfesting um stefnuleysi, höfuðlausa herför.

Leiðarljósið í stefnu um þessa lykilþjónustu okkar á að vera lýðheilsa, jafnræði allra landsmanna, gæði og skilvirkni. Þetta á ekki að vera óskalisti og fögur fyrirheit, heldur vel ígrundað mat á þeirri þörf sem við sjáum blasa við.

Mótun heilbrigðisþjónustu um allt land getur skipt sköpum um hvort okkur tekst að halda landinu í byggð. Í þessu felst mikil áskorun. Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem getur tekist á við þetta verkefni og leyst það.

Herra forseti. Við eigum ekki að láta reka á reiðanum, trúa á guð og lukkuna. (Forseti hringir.) Það dugar ekki lengur að hugsa sem svo: Þetta reddast.