148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

heilbrigðisáætlun.

196. mál
[17:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil enn þakka fyrir góða umræðu og segja nokkur orð í lokin. Í fyrsta lagi vil ég taka undir það sem fram kemur og hv. þingmaður og núverandi virðulegur forseti, Guðjón Brjánsson, nefndi áðan um úttekt Ríkisendurskoðunar á Sjúkratryggingum Íslands. Þar tekur Ríkisendurskoðun svo djúpt í árinni að segja að stefnuleysi einkenni málaflokkinn, það eru býsna stór orð, og hefur af því áhyggjur að fjármagn hafi ekki nýst með sem bestum hætti einmitt vegna þess.

Þannig að það er gríðarlega mikilvægt og hefur komið ítrekað fram að setja saman stefnu þannig að við séum öll á sömu leið í þessum mikilvæga málaflokki. Mitt markmið er að heilbrigðisstefnan verði niðurstaða Alþingis, þ.e. að þingsályktunartillaga sem lögð verður fram á Alþingi verði unnin í þverpólitískri sátt. Ég held að það skipti mjög miklu máli að heilbrigðisstefna standi af sér kosningar og breyttar ríkisstjórnir o.s.frv., þannig að hún verði hluti af innsigluðum samfélagssáttmála sem þjóðin getur gengið að vísum. Síðan verði útfærslur og einstaka aðgerðir o.s.frv. meira unnar frá einu ári til annars, eins og eðlilegt er.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson spurði um efnahagslega hvata og lýðheilsuáherslur, sem eru afar mikilvægar. Skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf verður seint ofmetið í því sambandi. Einnig hafa kviknað hugmyndir um að nýta skattkerfið í þágu lýðheilsumarkmiða. Ég vil líka nefna að leiðarstefið númer eitt í þessari vinnu allri varðandi heilbrigðisstefnu á Íslandi — ég tel að það sé í samræmi við vilja þjóðarinnar og það er það raunar samkvæmt rannsóknum — er að tryggja jafnan aðgang að sterkri heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Það held ég að við eigum að sammælast um hér á Alþingi að verði okkar meginmarkmið.