148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

gagnaver.

212. mál
[18:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt, að hlusta á ráðherra fara yfir hvað er í gangi. Mér finnst við einhvern veginn vera að teygja út höndina og segja: Við erum aðeins að fá að snerta á framtíðinni. Þá skiptir svo miklu máli að við höfum í fyrsta lagi ákveðna sýn. Ég fagna sérstaklega sýn hæstv. ráðherra varðandi samkeppni. Samkeppnin, hvað sem hver segir, laðar fram ótrúlega margt og mikið; frumkvæðiskraft einstaklinga, sköpunargáfu og kraft innan fyrirtækja o.s.frv. Það væri kannski ekki úr vegi að hæstv. ráðherra færi bara upp á 6. hæð og notaði þessa ræðu um samkeppnismál í landbúnaði líka. Það er önnur saga.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, því hún ræðir um orkustefnu og ætlar örugglega að koma inn á hana á eftir, til þess að hafa þverpólitískt samstarf af því að við erum að snerta framtíðina. Við þurfum að hugsa þetta lengra en bara kjörtímabilið, hugsa hvað við þurfum að ná pólitískri samstöðu um. Flokka- og pólitíska flóran er náttúrlega allt öðruvísi í dag en hún var hér á árum áður, þó að hæstv. ráðherra vilji, á meðan ég man, fækka flokkum, sem er náttúrlega umhugsunarefni sem við þurfum að taka umræðu um síðar.

Þetta er veruleikinn í dag. Þá skiptir svo miklu máli að hafa trú á samtalinu í svona ótrúlega mikilvægum framtíðarmálum sem tengjast auðlindum þjóðarinnar og að við náum öllum að borðinu. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra sem ég treysti mjög vel til dáða í þeim efnum.

Það er líka merkilegt að heyra að hæstv. ráðherra hefur fengið núna skilin á skýrslunni. Ég vil beina því til hennar að birta hana strax sem mér heyrðist hún ætla að gera og ég fagna því, því að hún er eitthvað sem m.a. atvinnuveganefnd þyrfti að taka til umfjöllunar og fá ráðherra á sinn fund til að ræða hvernig best sé að gera þetta.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra í allri þeirri endurskoðunarvinnu, af því að hún nefndi stórnotendataxta, til þess að þar verði byggt upp gagnsæi í upplýsingum og miðlun upplýsinga. Það hefur ríkt allt of mikil tortryggni (Forseti hringir.) í garð gjaldskrár til ákveðinna stórnotenda. Þar eins og í öðru verðum við svolítið að læra af reynslunni. (Forseti hringir.) Ég hvet hana til þess að hafa sem mest gagnsæi þannig að almenningur fari með í þá leið okkar að vilja hafa fjölbreytta flóru (Forseti hringir.) fyrirtækja, stórnotendur sem aðra. Áfram veginn.