148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

gagnaver.

212. mál
[18:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og langaði að bæta við um stefnuna og það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á um hana, ég er sammála því að hana vantar. Stefna skiptir meira máli en kannski ýmsir vilja vera láta. Ég held að það muni alltaf hafa áhrif á það hvernig atvinnulífið þróast. Auðvitað er það þannig að gagnaverin velja sjálf sína viðskiptavini þrátt fyrir að við myndum eðli máls samkvæmt vilja sjá meira af hátæknistörfum þar sem eru aukin verðmæti, það blasir við.

Samtök gagnavera eru líka að vinna ákveðna vinnu. Ég mun fá þau á minn fund þegar henni er lokið. Þá hef ég áhuga á því að horfa á þetta og lesa þetta saman, annars vegar þessa skýrslu sem ég reikna með að birta um leið og ég hef farið með hana inn í ríkisstjórn á föstudaginn og svo vinnu þeirra og að hvaða leyti þetta fer saman og skarast þannig að við getum sameiginlega komið þessu í gagnlegan farveg.

Ég fagna áhuga annarra þingmanna annarra flokka á málinu. Þetta er auðvitað mikil framtíðarmúsík á sama tíma og þetta er að gerast núna. Við vitum að þetta er mjög ört vaxandi iðnaður, ef ekki sá iðnaður sem er í hvað örustum vexti í heimi, þannig að sjálfsögðu viljum við taka okkar pláss þar.

Varðandi fjölda flokkanna þá vil ég ekkert endilega fækka þeim, en ég er samt þeirrar skoðunar að þeir þyrftu ekki endilega að vera svo margir. En það er eitthvað sem er bæði önnur umræða og lengri tíma mál.