148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Að gæta orða sinna er góða gjalda vert í flestum tilfellum. Þó ætti okkur í frjálsu lýðræðisríki að vera frjálst að viðhafa stór orð, jafnvel móðgandi eða særandi, sérstaklega þegar kemur að pólitískri og samfélagslegri umræðu á opinberum vettvangi.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í lögbannsmáli Glitnis HoldCo gegn Stundinni og Reykjavík Media, kom fram með leyfi forseta:

„Þegar tekin er afstaða til þess hvort sjónarmið um friðhelgi einkalífs geti réttlætt lögbannið sem mál þetta snýr að verður ekki litið fram hjá því að umfjöllun stefnda beindist í öllum aðalatriðum að viðskiptalegum umsvifum þáverandi forsætisráðherra, þ.e. einstaklings sem hefur sem stjórnmálamaður sjálfur gefið kost á sér til opinberra trúnaðarstarfa. Stjórnmálamenn geta almennt ekki vænst þess að njóta sömu verndar og aðrir einstaklingar gagnvart opinberri umfjöllun eða annarra lagareglna sem tryggja eiga leynd upplýsinga. Þvert á móti verður að telja að almenningur eigi við ákveðnar aðstæður tilkall til þess að fá upplýsingar um stjórnmálamenn sem að öllu jöfnu myndu teljast til einkamálefna, einkum þegar upplýsingarnar sem um ræðir tengjast því hvernig þeir hafi rækt hlutverk sitt sem stjórnmálamenn.“

Herra forseti. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lýst því í máli Castells gegn Spáni hversu mikilvægt það er að þingmenn fái að tjá sig opinberlega og opinskátt um málefni líðandi stundar í fjölmiðlum þar sem það þykir mikilvægur þáttur í opinberri og lýðræðislegri umfjöllun, meira að segja þegar tjáningin gæti kallast móðgandi eða stóryrt. Í öðrum dómi Mannréttindadómstólsins um tjáningarfrelsi þingmanna er þess þó sérstaklega getið að þingmenn verða að gæta að því að halda í heiðri lýðræðislegar hefðir og jöfn réttindi allra.

Því vil ég mælast til þess af öllum þingmönnum sem hafa ásakað þá sem hér stendur um að gæta orða sinna og vanda að virðingu þingsins að fara sérstaklega varlega með það þegar verið er að draga úr rétti t.d. útlendinga hér eða annarra minnihlutahópa (Forseti hringir.)í samfélaginu í þessari pontu að gæta að því lýðræðislega hlutverki að allir skuli jafnir fyrir lögum og öll njótum við mannréttinda. Því að þar þarf að gæta orða sinna.