148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni risavaxið mál sem við stöndum frammi fyrir en það er staðan í samgöngumálum. Ég sé, þar sem vitnað er í nýlegt minnisblað hæstv. samgönguráðherra, að hann reiknar með að verkefnið sem er fyrir framan okkur sé um 225 milljarðar. Það kemur heim og saman við þær tölur sem ég hef nefnt í greinum sem ég hef verið að skrifa að undanförnu, þar sem ég lagði fram töluna 200–250 milljarðar.

Þegar horft er á þetta í samhengi við að í dag erum við með 11,7 milljarða á fjárlögum til nýframkvæmda og 8,3 milljarða í viðhald, þá sést hversu risavaxið verkefnið er. Ekki er þolinmæði í samfélagi okkar fyrir því að komið verði til fólks víða um land og hér á höfuðborgarsvæðinu og sagt: Þetta er verkefni sem verður á dagskrá eftir 15 til 20 ár, svo brýnt er þetta verkefni.

Í nýlegri innviðaskýrslu sinni benda Samtök iðnaðarins á að auka þurfi viðhaldsfé í samgöngukerfinu okkar í 20 milljarða, úr 8,3, á ári næstu fimm árin svo að vel sé. Höfuðborgarsvæðið er auðvitað alveg sérstakt áhyggjuefni í þessu þó að vandamál séu um allt land. Þar hefur ekki tekist að byggja upp kerfi samgangna og við verðum öll vör við það hversu það hamlar umferð á hverjum degi.

Slysatíðnin er gríðarlega há. Hættulegustu kaflarnir í kerfinu okkar, vegakerfinu okkar, eru ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að kostnaður við slysin við þessi helstu ljósastýrðu gatnamót sé yfir 3 milljarðar á ári. Það er gríðarlega mikil fórn. Þar er ekki verið að reyna að setja verðmiða á mannlegan harmleik.

Það eru 712 einbreiðar brýr í kerfinu okkar af 1.225 brúm. Slys eru oft mannleg mistök, en vegakerfið verður að vera tilbúið til að taka á móti mannlegum mistökum, af því að þau munu alltaf eiga sér stað. Það er brýnt að horft verði út fyrir boxið hvað það varðar hvernig við ætlum að ráðast í stórvirki í (Forseti hringir.) samgöngumálum. Verkefnið hleypur ekki frá okkur þingmönnum. Einhverjar heitingar um það að menn geti hækkað hér (Forseti hringir.) á fjárlagaliðum, svo að við getum mætt þessu, eru draumórar einir að mínu mati.