148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Vinur er sá er til vamms segir, segir í fornum texta, gott ef ekki Hávamálum. Þetta er ágætt að hafa í huga og nýta sér, bæði til að hlusta á það sem vinir manns segja við mann og ráðleggja, en einnig til að ráðleggja sínum eigin vinum til að snúa til betri vegar.

Nú berast fregnir af því frá einu helsta vinaríki Íslendinga, Danmörku, að stjórnvöld þar í landi séu með fyrirætlanir um að stigbreyta refsingum fyrir glæpi eftir því hvar þeir eru framdir. Í ákveðnum hverfum í landinu verði refsingar tvöfalt harðari en séu glæpirnir framdir í öðrum hverfum. Kannski þarf engan að undra að hverfin sem um ræðir eru hverfi sem oft hafa verið kölluð gettó eða fátækrahverfi eða eru í það minnsta þannig samansett að þau skera sig úr öðrum hverfum.

Allir eru jafnir fyrir lögum. Það á ekki að skipta máli hvar fólk býr ef það misstígur sig á lífsins hálu braut. Það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum. Ef við opnum þessar dyr, hvað ætlum við að gera næst? Mun þá litarháttur skipta máli? Kyn? Kynhneigð? Stjórnmálaskoðanir? Trú?

Hæstv. utanríkisráðherra skrifaði í vikunni ágætisgrein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Mannréttindi eru hornsteinninn“ og vísaði þar til íslenskrar utanríkisstefnu. Ég fagna þessari grein og velti því upp við hæstv. utanríkisráðherra hvort þær fregnir frá vinaþjóð okkar, Dönum, séu ekki tilefni til þess að kalla sendiherra landsins á fund til að ræða mannréttindi og þá staðreynd að allir eiga (Forseti hringir.) að vera jafnir fyrir lögum.