148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

rafræn birting álagningarskrár.

177. mál
[14:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að mestu leyti mjög sammála þessari tillögu og finnst hún mjög góð. Það er ágætt að hafa þessar upplýsingar sem snúast síður um persónuna sem slíka heldur snúast þær meira um samspil persónunnar við samfélagið. Upplýsingarnar eru þá uppi á borðinu og aðgengilegar. En ég velti engu að síður fyrir mér, þar sem nú erum við að fara að taka upp nýja persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins á næstunni, hvar mörkin liggja samkvæmt þeirri reglugerð og hvar nákvæmlega eigi að draga línuna. Það eru ákveðnar spurningar um það. Það kann að vera að þetta sé öðrum hvorum megin við. Mér kemur til hugar að einhvers konar svigrúm sé fyrir því að birting upplýsinga sem ákveðin er samkvæmt lögum sé heimil. Engu að síður langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kannað það sérstaklega. Eru einhverjar takmarkanir undir GDPR, persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins? Hvar standa þær almennt gagnvart birtingu upplýsinga?

Ég óttast að það geti haft einhver neikvæð hliðaráhrif gagnvart persónuvernd að svona upplýsingar verði birtar. En eins og fram kom í máli hv. þingmanns höfum við gert þetta í mörg ár og það hefur ekki valdið neinu stórtjóni hingað til svo ég viti. Sömuleiðis hefur Noregur sem og önnur lönd gert þetta mjög lengi. Ég óttast því ekki afleiðingarnar mjög mikið en engu að síður er spurning hvernig þetta leggst gagnvart hinni nýju reglugerð.