148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem að standa auk mín hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen og Jón Þór Ólafsson.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna íslenskan leigubifreiðamarkað fyrir aukinni samkeppni.“

Við áttum áhugaverðar umræður um þessi mál í síðustu viku þar sem ég átti upphafið að samræðum við hæstv. samgönguráðherra og aðra þingmenn um frelsi á leigubílamarkaði. Það var áhugavert að heyra bæði núverandi ráðherra og fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Jón Gunnarsson, lýsa áhuga sínum á að endurskoða núverandi fyrirkomulag. Þó kemur hvatinn, ef svo má segja, kannski ekki síst vegna pressu að utan þar sem Eftirlitsstofnun EFTA er nú með í gangi svokallaða frumkvæðisathugun á íslenskum leigubílamarkaði, þ.e. skoðun á þeim lögum og reglum sem gilda um leigubílaakstur hér á landi.

Það er u.þ.b. eitt ár síðan stofnunin kom fram með gagnrýni á norska löggjöf um leigubifreiðar sem svipar mjög til hinnar íslensku. Þar komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að norska leigubifreiðalöggjöfin fæli í sér brot á EES-rétti. Það sem stofnunin er helst að skoða er hvort aðgangshindranir felist í ákvæðum íslenskrar leigubifreiðalöggjafar um fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum og einnig um kröfu íslenskrar löggjafar um stöðvaskyldu.

Í máli hæstv. samgönguráðherra í þeim sérstöku umræðum sem áttu sér stað í síðustu viku og ég vísa hér til kom fram að starfshópur sem forveri hans skipaði til að bregðast við athugun ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og endurskoða regluverk um leigubifreiðaakstur mun skila lokaskýrslu til ráðherra í mars næstkomandi, en hann hafi þegar skilað af sér áfangaskýrslu með þeim niðurstöðum að nauðsynlegt sé að afnema fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum eins og verið er að gera á öðrum Norðurlöndum. Samkvæmt hæstv. ráðherra telur starfshópurinn margt benda til þess að falla verði frá lögbundinni stöðvaskyldu í þeirri mynd sem hún er í dag en að einnig sé hægt að leita annarra leiða til breytinga í þá átt að það leiði ekki til lakari þjónustu við neytendur og að almennar kröfur muni tryggja gæði og öryggi leigubifreiðaþjónustu.

Virðulegi forseti. Svo ég vitni aftur í umræður síðustu viku kom þar fram í máli ýmissa sem tóku til máls að það væri tilgangslítið, jafnvel óþarfi, að leggja þessa þingsályktunartillögu fram af því að málið væri í farvegi. Það var svolítið stemningin hjá nokkrum í þessari umræðu. En málið er búið að vera í farvegi í nokkur ár, misjafnlega straumþungum vissulega, en farvegi engu að síður hjá ríkisstjórnum sem flokkur núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur einmitt átt aðild að. Og fyrrverandi, ef út í það er farið. Og hverju hefur það skilað? Jú, frumkvæðisathugun frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að ljóst þykir að íslenska leigubifreiðalöggjöfin brjóti í bága við EES-rétt.

Úr því að ég er að nefna þann farveg sem málið er nú í finnst mér líka erfitt að láta hjá líða að nefna fréttaflutning af mannabreytingum í umræddum starfshópi þar sem þeim fulltrúa sem helst hefur haldið uppi sjónarmiðum frelsis í þessu máli var skipt út. Og nei, það var ekki fulltrúi Neytendasamtakanna sem kom í staðinn. Þessar breytingar eru ekki beint til þess fallnar að auka trú á að markmiðið sé að auka frelsi á þessum markaði. Nema kannski rétt að því leyti sem allra nauðsynlegast er til að uppfylla skilyrði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. En ekki er úr vegi að benda á að við getum gengið lengra ef við viljum. Við getum verið eins frjálslynd í þessum efnum og við viljum. Ég vona og treysti því að málið sé raunverulega í farvegi í átt til aukins frelsis. Þessi þingsályktunartillaga og umsagnir hagsmunaaðila sem vænta má við henni, ef málið fær brautargengi hér í dag, eru að mínu mati mikilvægt innlegg í vinnu og tillögur starfshópsins.

Útgangspunkturinn er að inngrip ríkisvaldsins til að ákvarða hámarksfjölda leigubifreiða og hafa þannig róttæk áhrif á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á stærstu markaðssvæðunum er ámælisvert. Það eru engin rök fyrir ríkið að stjórna framboði á þessari þjónustu umfram aðra. Ég held að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að markaðurinn hér nái ekki jafnvægi framboðs og eftirspurnar frekar en á mörgum öðrum mun flóknari, viðkvæmari og fjármagnsfrekari mörkuðum. Auðvitað eigum við að hafa reglur eins og við höfum um aðra starfsemi sem við viljum tryggja að sé faglega unnin. En líkt og annars staðar getum við tryggt þá fagmennsku án þess að takmarkanir á frjálsa samkeppni sem eru í gildi á leigubílamarkaði í dag séu fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi að mestu vísað til hagsmuna neytenda í máli mínu tel ég ekki að hagsmuni bílstjóranna megi láta sér í léttu rúmi liggja. Langt frá því. Atvinnufrelsi þeirra kallar á að réttur þeirra sé ekki takmarkaður til að skapa sér hærri tekjur með auknu sjálfstæði í starfi eða hvernig þeir kjósa að verðleggja þjónustu sína. Það er ekki síður mikilvægt að stórlækka opinber gjöld sem eru lögð á þessa atvinnugrein því að þau eiga stóran hluta í því að halda verðlagi uppi. Það er líka tímabært að leigubílsstjórar á höfuðborgarsvæðinu fái frelsi til að velja hvort þeir starfi við leigubílastöð eða sjálfstætt og að fella niður gjöld fyrir bið við leigustöðvar. Ef bílstjórar vilja starfa áfram við leigubílastöðvar verða leigubílastöðvar áfram til, en bara fyrir þá bílstjóra sem það vilja.

Ein af þeim breytingum sem lögð er til í þessari tillögu er endurskoðun á núgildandi kröfu um að löggiltir gjaldmælar undir eftirliti Samgöngustofu séu í öllum leigubílum. Þetta ákvæði hamlar m.a. tæknilegri framþróun og tilheyrandi nýsköpun í þessari þjónustu á borð við greiðslu í gegnum snjallsímaforrit. Ég nefni það sérstaklega frá umræðunni í síðustu viku að þau rök voru þá nefnd að þessir löggiltu gjaldmælar tryggðu eftirlit og hámörkun á skilvirkri innheimtu opinberra gjalda og væru því breytingar þar að lútandi ávísun á svarta atvinnustarfsemi í greininni. Fyrst þetta var sérstaklega nefnt þá vil ég fyrir þá sem ekki þekkja til nefna að í svokölluðu skutlarahóp Facebook, sem mér skilst að telji núna ríflega 40 þús. meðlimi, er bara mögulega ekki alltaf allt uppi á borðinu. Og burt séð frá þeim kannski lítt skráðu viðskiptum sem þar eiga sér stað er rétt að geta þess líka í tengslum við þessar fullyrðingar að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra fer stofnunin ekki fram á að leigubílstjórar skili gögnum úr gjaldmælum þegar þeir gera grein fyrir skattstofni tekna sinna. Þeir gjaldmælar einir og sér tryggja ekkert. Þær breytingar sem hér er um rætt eru að mínu mati þvert á móti til þess fallnar að draga úr svartri atvinnustarfsemi þar sem áhugasamir ættu fleiri kosta völ. Ég sé ekki af hverju aukið frelsi innan almennra lagaramma um sjálfstæðan rekstur leigubílstjóra líkt og annarra ætti að ýta undir slíka svarta starfsemi.

Opnun markaðarins á engan hátt að koma í veg fyrir að þeir sem þá opnun nýta sér standi eins og aðrir á íslenskum vinnumarkaði skil á launatengdum gjöldum og öðrum opinberum gjöldum, í takt við lög og reglur þar að lútandi. Hér á landi erum við með nokkuð skýrt regluverk utan um sjálfstæðan atvinnurekstur. Við erum að tala um frelsi með ábyrgð og félagsleg undirboð falla klárlega ekki þar undir.

Virðulegi forseti. Til að leigubílar geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu þarf þjónustan að vera aðgengileg og á viðráðanlegu verði. Heilbrigð samkeppni er lykillinn í að ná þeim markmiðum. Að þeim uppfylltum gætu fleiri lagt einkabílnum varanlega, kjósi þeir að gera svo, og nýtt strætisvagna og leigubíla í bland til að sinna erindagjörðum sínum með minni kostnaði, minna álagi á vegakerfið, minna af svifryki og aukinni umhverfisvernd.

Áhugi minn á þessu frelsismáli, frelsi á þessum markaði, snýr fyrst og fremst að því að leigubílar í mismunandi mynd verði í ríkari mæli hluti af lausninni á þeim áskorunum sem almenningssamgöngur okkar standa frammi fyrir. Það þarf fjölbreyttara framboð og fjölbreyttara verð til að svo verði. Það er ekkert víst að sú lausn detti fullsköpuð í fangið á okkur þegar markaðurinn hér verður loksins gefinn frjáls. Við þurfum að feta okkur áfram. Tækninýjungar hafa í þessari atvinnugrein líkt og öðrum verið gríðarlegar en það sér engan veginn fyrir endann á þeim og það er ekkert eitt skyndisvar til, engin ein besta lausn tilbúin. En ég er þess fullviss að við finnum þær lausnir frekar með frelsi en höftum. Hæstv. samgönguráðherra nefndi hér í síðustu viku að það væri ekki nóg að æpa frelsi, frelsi. Það má vel vera. En það gagnast örugglega betur en að hrópa lok, lok og læs og vona að heimurinn standi kyrr. Hann gerir það ekki.

Ég hlakka til þess að þingsályktunartillögunni verði vísað til afgreiðslu nefndar þar sem við fáum umsagnir mismunandi aðila með ólík sjónarmið en sem eiga það sammerkt að vilja taka umræðuna um þetta mál. Ég treysti því að við getum unnið saman að betra kerfi sem gætir hagsmuna allra og sátt getur skapast um.