148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti fróðlegt þegar hv. þingmaður fór út í þróunina í Svíþjóð að á árinu 1986 hefði þetta allt verið gefið frjálst, síðan upp úr 2014 og rétt aðeins fyrr væru leigubílstjórar farnir að stinga fólk og fremja mansal og svoleiðis. Hv. þingmaður nefndi það og eftir það stöðvaskylduna sérstaklega.

Mig langar til að heyra aðeins meira um hvaða lógík hv. þingmaður telji að búi þarna að baki, að ef leigubílstjórar þurfi ekki að vera með stöðvaskyldu þá allt í einu verði þeir glæpahneigðir eða hvað. Eða hvað veldur? Ég átta mig ekki alveg á hvernig aukið frjálsræði í þessu veldur glæpum. Það er það sem ég skil ekki. Sér í lagi ef við hugsum um skutlarahópinn. Ættum við þá ekki að sjá að bílstjórar þar væru að stinga fólk og fremja mansal og hvað eina? Ef svo er, væri þá ekki einmitt málið að fá það upp á yfirborðið inn í eitthvert regluverk þar sem allir geta tekið þátt?