148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Því er nú þannig háttað með nýliðun í þessari stétt, leigubílastéttinni, að það byrjar þannig að þeir sem hafa áhuga á að fara inn í þá stétt koma venjulega fyrst inn í afleysingar. Þá eru þeir á ákveðinni starfsstöð, þ.e. þá kemur mjög fljótlega í ljós hvort viðkomandi á heima í þessari grein. Það hefur gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að mönnum hefur verið bent á það að þeir væru ekki heppilegir kandídatar í þetta starf. Í því felst ákveðið aðhald sem starfsstöðin sér um. Þess vegna er starfsstöðin mikilvæg vegna þess að hægt er að halda utan um hóp þeirra manna sem starfa í þessari grein. En ef menn hafa frjálsræðið og þurfa ekki að vera á neinni starfsstöð, þá er enginn að fylgjast með því hvað þeir gera, hvernig þeir haga sér o.s.frv. (Forseti hringir.) Í því ljósi eru starfsstöðvarnar mjög mikilvægar.