148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, þurfti því miður að bregða mér frá en fékk spurnir af því að einhverjum orðum í ræðu hans hefði verið beint til mín og fari ég rangt með treysti ég því að ég verði leiðrétt.

Fyrst það sem mig langar að taka fyrir á þessum stutta tíma er að hv. þingmaður talaði um að ekki hefði verið haft samráð, það væri sérkennilegt. Þá er því til að svara að miðað við það sem ég þekki til þá er það ekki hefðin við svona þingsályktunartillögur. Samræða á sér stað þegar málið fer til umsagnar. Að sjálfsögðu er sá listi opinn og menn geta sent inn umsagnir að eigin frumkvæði, en við sem erum í nefndum búum líka til lista yfir hagsmunaaðila. Það þarf því enginn að óttast það að þeir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, ég tala nú ekki um atvinnuhagsmuni, verði ekki beðnir um að veita umsagnir í þessu máli, nái það því stigi.

Síðan varðandi það að ég hefði neitað að tala við aðila sem hefðu haft samband við mig. Þá þarf ég að lýsa því að þegar málið kemur upp í umræðum í síðustu viku þá nær flensan tökum á mér daginn eftir og ég var veik heima út vikuna. Ég fékk töluverðan (Forseti hringir.) fjölda Facebook-skilaboða og tölvupósta og taldi mig hafa svarað þeim öllum, en það hefur kannski eitthvað farist fyrir. (Forseti hringir.)Það er ekkert annað að gera en að biðjast velvirðingar á því. Ég er aftur mætt til vinnu, sitji einhver hér á pöllunum sem hefur áhuga á að tala við mig, (Forseti hringir.) og er með minn tölvupóst og síma opinn. Ég ítreka það bara að hafi eitthvað dottið upp fyrir við þessar aðstæður þá þykir mér það miður.