148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:08]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt í fáfræði minni að leigubílstjórar hefðu meirapróf. (Gripið fram í.) Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Já. Er það þá rétt að þessir fyrirhuguðu leigubílstjórar hafi meirapróf? Verður þeim gert skylt að sækja skyndihjálparnámskeið? Verður þeim gert skylt að hafa alla sömu færni og leigubílstjórar? Snýst þetta eingöngu um að fjöldatakmörkunum verði aflétt?

Ég hef aldrei skilið þessar breytingar á leigubílamarkaði þegar menn nefna svo í sömu andrá Uber og Lyft, sem er jú gert, að þetta sé allt í einu orðið það sama og sömu kröfur gerðar og við gerum til venjulegra leigubílstjóra. Hvað almenningssamgöngur snertir getur vel verið að mér hafi yfirsést að leigubílaakstur tilheyri almenningssamgöngum. En ég er að tala um raunverulegar viðbætur og úrbætur í almenningssamgöngum sem snúast ekki um að fjölga akandi bílum fyrir örlítið lægra verð en leigubílar, heldur snýst það um raunverulegar almenningssamgöngur sem eru skipulagðar og víðtækar og kosta almenning fremur lítið fé. Þannig hef ég litið á almenningssamgöngur og tók þetta sem innlegg í það.

Ég get ekki séð að við séum hér að tala í kross. Ef svo er hef ég bara ekki skilið þennan málatilbúnað rétt, að hér eigi í raun og veru að gera nánast allar sömu kröfur til þessara bílstjóra og venjulegra leigubílstjóra.