148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við sem ekki kyngjum þessari tillögu orðalaust eins og hún liggur fyrir erum á móti samkeppni. Forfeður okkar hafa væntanlega mótmælt símanum á sínum tíma. Við erum á móti þróun í þjóðfélaginu. Við viljum hafa einokun. Í sumum kreðsum er ekkert verra til, engin verri synd en vera á móti samkeppni.

Í þessari tillögu er verið að leggja til að fótunum sé kippt í einu vetfangi undan 600 manna starfsstétt, bara eins og að draga í teppi og að kippa undan þeim fótunum. Af hverju? Það á að auka hérna samkeppni. Með hverju? Með því að lækka standardinn. Það er einfaldast.

Nú ætla ég að segja við hv. flutningsmenn: Ef þeim er mikil alvara í því að standa fyrir samkeppni í fólksflutningum á Íslandi skal ég benda þeim á dæmi sem er miklu nærtækara og snertir miklu fleiri en að taka til í leigubílageiranum. Þeir geta stuðlað að eðlilegri samkeppni á leiðinni frá Reykjavík til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og til baka aftur í hópferðabíl. Þá værum við að tala saman. En í þessari tillögu er gert ráð fyrir, eins og hér segir, að gera einfaldlega ekki sömu kröfur til þeirra sem koma nýir inn á markaðinn og þeirra sem fyrir eru á fleti.

Eins og ég sagði í andsvari áðan er engin krafa gerð um að menn séu fjár síns ráðandi. Þeir þurfa ekki að eiga bíl. Að vísu er talað um að þeir eigi að hafa próf, en eins og hér segir verða aðrar kvaðir að teljast óeðlileg takmörkun á atvinnufrelsi einstaklinga. Með leyfi hæstv. forseta:

„Eðlilegra er að námskeið og próf til að hljóta atvinnuleyfi sé mælikvarði á hvort einstaklingur sé hæfur til aksturs leigubifreiða. Aðrar kvaðir verða að teljast óeðlileg takmörkun á atvinnufrelsi einstaklinga.“

Það er óeðlileg takmörkun hvort maðurinn á bíl eða fær hann lánaðan hjá nágranna sínum eða systur sinni til þess að keyra leigubíl.

Það er reglugerð um stærð leigubíla. Þar þarf að uppfylla viss skilyrði um það um innanrými fyrir farþega. Nei, við bara tökum litla Fiatinn hennar ömmu og förum í leigubílaakstur, gjaldþrota, með fjársvikadóm á bakinu. Skiptir engu máli. Við erum ekkert að kaupa okkur Benz til þess að fara að keyra einhverja farþega um Reykjavík og nágrenni. Ekki aldeilis, ekki þegar við komumst af með þetta.

Það er enginn vandi að efna til starfsemi þegar maður lækkar standardinn á þeim sem koma inn í greinina og eiga að heyja samkeppni við aðra sem hafa gert eitthvað annað og betra. Enginn vandi. Það geta allir gert.

Mér er það efst í huga fyrir utan atvinnuöryggi þeirra sem eru þegar í þessari grein. Nota bene, þeir sem stunda þessa atvinnugrein á Íslandi eru yfirleitt þátttakendur í samvinnufélögum sem standa hjarta mínu nær. Erlendis erum við oftast nær að tala um mjög stór fyrirtæki sem reka fjöldann allan af leigubílum og ráða verktaka til þess að keyra. Oftar en ekki eru það menn sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Við þurfum ekki annað en að horfa á leigubílaútgerð t.d. í New York þar sem við förum upp í gulan leigubíl sem er handrúllaður með „spred satin“, gulum lit, og demparalaus og maður eða kona sem er í slæmri aðstöðu keyrir. Viljum við það? Það held ég varla.

Ég vil líka halda uppi vernd gagnvart neytendum í þessu máli. Ég vil vera næsta viss um þegar ég panta mér leigubíl og, nota bene, þegar ég hringi eftir leigubíl eða panta hann í appi get ég yfirleitt ekki tilgreint að ég vilji fá Mercedes Benz 2007 með leðri, heldur kemur bara leigubíll. Hann er af ákveðnum staðli ef hann kemur frá viðurkenndri leigubílastöð. Ef ég hringi í skutlara kemur einhver gjaldþrota maður með fjársvikadóm á bakinu á bílnum hennar ömmu sem ég veit ekkert hvernig er og býðst til að keyra mig tryggingalaus í gegnum bæinn. Ef við verðum fyrir strætó þá segir hann bara: Afsakið, ég gat bara ekki að þessu gert. Hann ber enga ábyrgð.

Viljum við þetta í alvöru? Ætlum við að færa þessa flutninga niður á það plan? Er það virkilega?

Einn flutningsmanna málsins sagði áðan aðspurður: Við bjóðum ekki fram lausnir. — Nei, er það ekki? Ef maður leggur fram tillögu um eitthvað hlýtur maður að leggja hana fram til enda. Maður hlýtur að horfa á hana til enda. Að leggja fram eina svona tillögu er ekki eins og hlaðborð, maður velur ekki bara graflaxinn og sleppir hinu. Maður tekur allan pakkann, ekki satt?

Síðan er eitt í viðbót. Í þessari tillögur er hvergi minnst á tryggingar. Hvergi er minnst á hugsanleg skattskil, hvernig þau eiga að fara fram eða ekki. Þessi tillaga er ávísun á skattsvik, ævintýraleg skattsvik. Því að hvaða fordæmi höfum við? Í þrjú og hálft eða fjögur ár hefur sá sem hér stendur talað við þó nokkra ráðherra í þessum sal og beðið þá í öllum bænum að koma böndum á Airbnb-starfsemi hér í Reykjavík þar sem 3.000 einingar eru óskráðar og greiða enga skatta. Af hverju? Það er heldur ekki búið að taka þær út af brunaástæðum o.s.frv. Verið er að bjóða hér ódýrari gistingu en á hótelunum. Af hverju? Vegna þess að menn eru í fyrsta lagi að bjóða minni gæði á gistingunni, verið er að bjóða upp á húsnæði sem ekki hefur verið tekið út af brunamálayfirvöldum og er hvergi skráð. Hvernig ætla menn að fylgja því eftir, samanber skutlara? Hvernig ætla menn að fylgja því eftir að nauðsynleg og lögbundin gjöld verði greidd af þessari starfsemi?

Þá segi ég aftur: Það er enginn vandi að standa í starfsemi ef maður borgar ekki skatta og skyldur. Ég er alveg til í að reka hvaða fyrirtæki sem er og hafa það alveg býsna gott ef ég er næstum því viss um að skatturinn banki ekki upp á hjá mér og ég þarf ekki að standa skil á einu eða neinu. Það er minnsti vandi í heiminum.

Þó að ég standi undir því ámæli að vera á móti samkeppni, sem er skelfilegt, og er örugglega mosavaxinn og kominn í beinan karllegg af risaeðlum, þá segi ég samt að þegar maður leggur fram mál eins og þetta þá hljótum við að gera kröfur, við hljótum að gera kröfur sem vernda viðskiptavininn.

Ég veit að nafni minn Víglundsson, hv. þingmaður sem hér kom áðan og skammaði mig fyrir það að vera á móti samkeppni, er neytendasinnaður maður. Hann er búinn að reka viðskipti í fleiri, fleiri ár og hann veit að viðskiptavinurinn er aðalatriðið. Hvers vegna ætlum við þá að gera hlut viðskiptavinarins ótryggari með því að leggja fram þessa tillögu? Hvers vegna ætlum við að bjóða upp á minni gæði, minna öryggi? Menn segja: Þetta er lægra verð. Já, ókei, það getur vel verið að þetta sé lægra verð, en það er engin einasta trygging fyrir því að svo sé, ekki nokkur.

Það eina sem við getum verið viss um ef við hringum eða sendum boð í gegnum app, eða hvað sem við gerum, eða förum inn á símann og pöntum okkur bíl, að til okkar getur komið gjaldþrota maður á bílnum hennar ömmu með fjársvikadóm á bakinu og engar tryggingar og bjóðist til þess að keyra okkur hvert á land sem er. Viljum við það? Nei, við viljum vera örugg þegar við tökum leigubíl. Við viljum vera viss um að það sé fagmennska á bak við.

Þess vegna segi ég: Það er ekkert sem mælir á móti því að opna þetta kerfi ef við erum nokkuð viss um að það sé til bóta.

Ég segi aftur: Við skulum vera viss um að við séum að stíga skref sem við getum lifað með, vegna þess að mér fannst það einhvern veginn kristallast áðan í ræðu eða andsvari eins ræðumanns að innst inni vissi viðkomandi að þetta væri frekar snemmframborið mál vegna þess að við vitum ekki hvað kemur út úr þeirri endurskoðun sem þó er hafin fyrir tilstuðlan fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra sem allir aðilar koma að. Við vitum ekki hvað kemur út úr því. Af hverju ætlum við þá að þvinga okkur í þann pott miðjan þegar við vitum ekki hvað kemur út úr þeirri vinnu? Af hverju ætlum við að setja upp þessa hörmung hér sem lækkar staðla á allri þessari starfsemi alveg sama hvar á hana er litið og minnka öryggi viðskiptavina?

Ég get ekki skrifað upp á svona, mér þykir það leitt. Frelsið er yndislegt, eins og segir í kvæðinu, en við skulum ekki láta það bitna á þeim sem eiga að nota þjónustuna.