148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að ég og hv. þingmaður deilum ekki sömu trú á frjálsa samkeppni, það heyrist mér á málflutningi hans. Ég velti fyrir mér tveimur þáttum í málflutningi hv. þingmanns. Ég trúi á almennar leikreglur í atvinnulífinu. Ég trúi á að við eigum, óháð því við hvaða atvinnugrein við störfum eða hvaða vinnu við sinnum, almennt að vera undir sömu reglur og lög sett um hvaða skilyrði okkur eru sett til þess að mega starfa þar. Þetta snýr að atvinnufrelsi okkar.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er ekki miklu eðlilegra að ræða það með almennnum hætti hvenær við glötum atvinnufrelsi okkar með einhverjum hætti? Eru þá einhverjar sérstakar atvinnugreinar sem eru viðkvæmar? Ættum við að vera með einn, tvo, þrjá flokka af þeim skilyrðum sem við setjum til starfa í einstökum atvinnugreinum, hvort brot á lögum, dómum, svipti okkur tímabundið og alvarleika þeirra o.s.frv.? Er ekki miklu eðlilegra að nálgast þetta með almennum hætti? Því það er fjöldinn allur af viðkvæmum atvinnugreinum sem við höfum. Þeir sem eru að þjóna okkur í mjög náinni þjónustu eða samskiptum við okkur í að veita þá þjónustu. Ég tel miklu eðlilegra að nálgast þetta með almennum hætti.

Mér leikur líka forvitni á að vita. Hv. þingmaður talar um að með því að opna fyrir frelsi þarna þá séum við að útsetja þessa atvinnugrein fyrri alls kyns skattsvikum og öðru slíku. Ég vil gjarnan snúa þessari röksemdafærslu við og segja: Við þekkjum til svartrar atvinnustarfsemi í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum hér á landi. Er það þá lausn hv. þingmanns á þeim vanda sem við getum verið sammála um að er mikið vandamál, að grípa til fjöldatakmarkana, opinberrar magnstýringar í öllum þessum atvinnugreinum, til þess að koma í veg fyrir skattsvik? Telur hv. þingmaður að engin skattsvik sé að finna í rekstri leigubifreiða?