148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alla vega hughreyst hv. þingmann með því að ég er ekki minni aðdáandi jafnræðisreglunnar en hann segist vera. Við þurfum þá varla að rífast lengi um það að við viljum einmitt að sömu reglur gildi, um nýja aðila sem eru að koma inn í þessa atvinnugrein og þá sem fyrir eru. Að sjálfsögðu eiga sömu reglur að gilda, enda er ekki kveðið á um neitt annað í þessari þingsályktunartillögu. Þarna er bara verið að tala um að afnema fjöldatakmarkanir. Vissulega eru ýmsar hugmyndir reifaðar til að draga úr þeim kvöðum sem settar eru, en það á vissulega við um alla, líka þá sem nú starfa í greininni.

Ég fagna því að hv. þingmaður efni hér til sérstakrar umræðu um skattskil, það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið allt að eftirliti sé vel sinnt og allir spili eftir sömu reglum. Það er það versta sem gerist í samkeppni þegar óheiðarlegir aðilar ákveða að spila eftir eigin leikreglum, greiða ekki skatt af starfsemi sinni. Slíka starfsemi eigum við alltaf að uppræta og vinna gegn, að sjálfsögðu.

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því að það að opna á frjálsa samkeppni í atvinnugrein sé sérstök ávísun á skattsvik. Mér hrýs í raun hugur við andhverfu þess. Ég spyr hv. þingmann út í aftur: Er ekki lausnin að hafa skilvirkt og gott og öflugt eftirlit með öllum atvinnugreinum þegar kemur að málefnum eins og skattsvikum? Er það ekki betri leið en að fara að takmarka fjölda þeirra sem starfa í greinunum?

Ég nefni bara sem dæmi, af því að skattsvik og byggingariðnaður hafa gjarnan verið spyrt saman, hvort sem það er sanngjarnt eða ekki: Ættum við þá að beita fjöldatakmörkunum gagnvart þeim sem hafa leyfi til að byggja og selja íbúðir? Það held ég ekki.