148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ræðuna og flutningsmönnum fyrir að leggja fram þessa áhugaverðu tillögu. Ég verð að segja að við yfirlestur á frumvarpinu sem er kannski ekki langt og á greinargerðinni þá finnst mér erfitt annað en að vera því sammála.

Ég viðurkenni líka að ég þekki kannski ekki mikið til svona mála, en tek eftir því að þetta mál hefur verið lagt fram áður á þinginu. Fyrir um ári síðan, eða í mars 2017, kom inn umsögn frá utanríkisráðuneytinu um frumvarp sem, ef ég skil rétt, er algjörlega sambærilegt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Í umsögn utanríkisráðuneytisins er tekið fram að afstaða þess byggist fyrst og fremst á þjóðréttarlegum skuldbindingum sem felast m.a. í alþjóðasamningi um stjórnmálasamband frá árinu 1961, Vínarsamningnum. Afstaða ráðuneytisins er í rauninni sú, það færir svo sem fyrir því ágætisrök, að ekki sé tímabært að fella brott 95. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þeirra skuldbindinga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún og flutningsmenn þessarar tillögu hafi farið yfir umsögn utanríkisráðuneytisins og velt því fyrir sér hvort það sé einhver önnur leið fær til að ná fram því markmiði sem sett er fram í greinargerðinni.