148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þinginu í gær var flutt kraftmikil ræða af hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur um það skelfilega ástand sem ríkir í hinum stríðshrjáðu löndum Sýrlandi og Jemen, um máttleysi alþjóðasamfélagsins við að stöðva grimmdarverkin sem þar eru framin. Ræða hv. þingmanns hreyfði við mörgum.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði fyrir skömmu að í Jemen væri að finna helvíti á jörðu.

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að Íslendingar skuli hafa verið þátttakendur í þessu stríði, að Íslendingar skuli hafa stuðlað að því að börn og unglingar voru strádrepin með vopnum sem Íslendingar fluttu.

Undir merkjum litla friðsæla Íslands, undir fána Íslands streymdu vopn í hendur villimanna sem drepa saklausa borgara eins og að drekka vatn. Tuttugu og fimm ferðir á stórri vöruflutningavél, ekki með hjálpargögn, ekki með mat og lyf, ekki til að bjarga mannslífum, ferðir til þess að drepa fleiri, ferðir með 170.000 jarðsprengjur, 2.000 eldflaugavörpur, 850.000 skotfæri, 850 vélbyssur.

Herra forseti. Þetta er stórkostlegt hneyksli. Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hunsaðar, samningar brotnir. Það þýðir ekkert að drekka kokteila í New York, skrifa undir samninga og henda þeim svo í ruslið. Hvað er þetta fólk eiginlega að gera sem á að sjá til þess að við uppfyllum skuldbindingar okkar?

Herra forseti. Nú er tími til kominn, svona einu sinni á Íslandi, að þeir sem heimiluðu þennan flutning undir íslenskum fána, embættismenn, stjórnmálamenn, verði látnir sæta ábyrgð. Orðstír Íslands hefur beðið hnekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)