148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að koma hingað upp á eftir síðasta ræðumanni, það voru virkilega orð í tíma töluð. Ég ætla að gera fæðingarorlof að umtalsefni. Í vikunni fékk ég svar við fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra um fæðingarstyrki og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þar kemur fram að tæplega 12.000 einstaklingar fengu greiðslur úr kerfinu á síðasta ári og þar af 91% úr Fæðingarorlofssjóði. Afgangurinn fékk fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar og fæðingarstyrk námsmanna. Á árinu 2017 fengu 470 manns greiddan fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar að upphæð 74.926 kr. á mánuði. Það voru 373 konur og 97 karlar. Þetta er fólk með börn. Dæmi eru um fólk sem hefur aðrar tekjur með, en ekki allir. Ég vona alla vega innilega að stúlkurnar 24 í þessum hópi, sem voru yngri en 20 ára, eigi gott bakland. Góðu fréttirnar eru þær að þeim sem eingöngu fá fæðingarstyrki hefur fækkað hlutfallslega frá 2011.

Er þetta sanngjarnt kerfi? Jú, reglurnar eru nokkuð skýrar, rétturinn er áunninn. Hann felst í því að hafa verið á vinnumarkaði samfellt síðustu sex mánuðina fyrir töku fæðingarorlofs. Engu máli skiptir hvort viðkomandi einstaklingar hafa árlega verið þrjá til fjóra mánuði á vinnumarkaði eða jafnvel árum saman samfellt á vinnumarkaði. Kerfið er bara þannig. En er þetta heppilegasta kerfið fyrir einstaklinga og samfélag? Er heppilegt að festa suma foreldra í fátæktargildru við fæðingu barns þegar við viljum draga úr fátækt barnafjölskyldna? Hvort er betra fyrir einstaklinginn, jafnrétti á vinnumarkaði eða atvinnulífið, að ungt fólk eignist börn við lok námstíma eða fari á vinnumarkaðinn og fresti barneignum? Spyr sá sem ekki veit.