148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:48]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli sem eigendastefna ríkisins fyrir bújarðir er. Eins og hv. málshefjandi kom inn á kom mjög skýrt fram í lokaskýrslu starfshóps um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu árið 2015, mikilvægi þess að ríkið mótaði sér skýra og opinbera eigendastefnu fyrir landareignir sínar, ráðstafanir þeirra og réttindi og hefði hagsmuni nærsamfélagsins og þjóðfélagið í heild í huga. Það hlýtur því að skipta mjög miklu máli að slík stefna verði kláruð hratt og örugglega.

Ég hlýt að fagna því að sú vinna sé að einhverju leyti farin af stað innan ráðuneytisins, eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra. En við hljótum að leggja áherslu á að það verði drifið af og klárað. Við hljótum að leggja áherslu á að í þeirri stefnu verði mótað opið og gott ferli fyrir ákvarðanatöku varðandi ríkisjarðir, hvort sem til stendur að leigja þær eða selja.

Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það að litlar tekjur kæmu inn af leigujörðunum. En er samt ekki skárra að fá einhverjar tekjur en engar?

Margar þessara jarða í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til ýmissa þátta, svo sem náttúru, sögu og menningar, en það þýðir þó ekki að ásættanlegt sé að þær standi ónotaðar og í eyði.

Það er nauðsynlegt að ríkið svari því með skýrum hætti hvaða jarðir megi selja, hverjar megi leigja og skilgreini sömuleiðis með hvaða kvöðum það verði gert.

Það er mikilvægt að halda landinu í byggð og það er til háborinnar skammar fyrir ríkið að láta ríkisjarðir grotna niður. Þá er ég ekki byrjuð að nefna þau áhrif sem þessar jarðir hafa eða geta haft í tengslum við umhverfismál. Ég mun koma betur inn á það í seinni ræðu minni.