148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu og ekki síður fyrir greinargóð svör hæstv. ráðherra, sem mér finnst vita á gott. Við í Viðreisn teljum afar brýnt að mótuð verði eigendastefna ríkisins varðandi þetta efni. En í prinsippinu vil ég þó geta þess að mér finnst ekki að ríkið eigi að vera eigandi jarða. Það skiptir mjög miklu máli að við byggjum upp þannig umhverfi að hér verði blómleg byggð um allt land, að við höfum þannig umhverfi að búvörusamningar styðji það að fólk geti stundað landbúnað á jörðum vítt og breitt um landið. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Varðandi mótun eigendastefnu tel ég líka mikilvægt að hafa í huga niðurstöðu þeirrar nefndar sem skipuð var á sínum tíma varðandi innanríkisráðherra. Það var í kjölfarið á umræðunni um hverjir megi kaupa hér jarðir almennt. Þar eru nokkur góð leiðarljós sem við verðum að hafa í huga, þ.e. að gæta jafnræðis eins og kostur er og mismuna ekki eftir þjóðerni eða búsetu. En það er engu að síður hægt að setja ákveðnar sérreglur svo lengi sem við mismunum ekki á grundvelli þjóðernis eða umbunum Íslendingum umfram aðra.

Frekar ættum við gera ákveðnar kröfur. Eins og kemur skýrt fram hjá nefnd sem núverandi dómsmálaráðherra sat reyndar í og einnig fulltrúi þáverandi landbúnaðarráðherra er mikilvægt að hafa í huga þessi ágætu leiðarljós við mótun eigendastefnu ríkisins þegar og ef við förum að selja bújarðir, vonandi til bænda til þess að rækta áfram. Við getum sett fram tillögur samkvæmt dómstólum, við getum sett sérreglur á grundvelli landbúnaðarmála, á grundvelli þess hvernig við ætlum að tryggja matvælaframleiðslu. En reglurnar verða að vera almennar. Ef við ætlum að gera undanþágur geta þær verið byggðar á eftirfarandi atriðum: (Forseti hringir.) Fyrirhugaðri notkun, þjóðhagslegri hagkvæmni, áhrifum á umhverfi og samfélag, afstöðu sveitarstjórnar, gegnsæi (Forseti hringir.) eignarhalds og þörf fyrir land með tilliti til landnotkunar.

Ég held að við (Forseti hringir.) höfum í raun öll þau rök sem við þurfum til þess að geta mótað eigendastefnu. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.