148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er gott að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra hér um þetta mál. Hann er yfirmaður ríkisjarða ef svo má að orði komast og það er líka gott að hann fái að heyra sögurnar af því hvernig ríkið kemur fram við fólk sem býr á ríkisjörðum.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan að hann ætlar að gera átak í því að stytta m.a. þann tíma sem fer í að svara erindum o.s.frv. og ég fagna því heils hugar. Það er líka hægt að setjast inn á kontór hjá embættismönnum sem hafa þennan málaflokk á sinni könnu og benda þeim á að það sé mjög einfalt mál að svara þessu bara hratt og vel.

Ég vil einnig beina aðeins sjónum að unga fólkinu og endurnýjun í landbúnaði þegar kemur að ábúð á ríkisjörðum. Þess eru mörg dæmi, og við eigum að fagna því, að t.d. börn ábúenda vilja taka við rekstri en þá komum við að vandamáli. Unga fólkið, eins og við þekkjum það, vill náttúrulega bæta húsakost, stækka við sig o.s.frv., tækjabúnað og annað slíkt í landbúnaði, en þá kemur unga fólkið að lokuðum dyrum hjá ríkisvaldinu. Ríkisvaldið heimilar ekki neinar stórbyggingar, það er ekki hægt að fara í neinar fjósabyggingar og ef það er hægt er það í mesta lagi þannig að hægt sé að byggja á smáskika úr jörðinni.

Þið sjáið að fólk vill náttúrlega hafa sitt umhverfi þannig að það geti notað allt landið og haft eitthvað um það að segja þegar það fer í svona stórar framkvæmdir. Þá er spurningin hvort ekki sé hægt að kaupa jörðina. Jú, ef ríkisvaldið heimilar og í þeim tilfellum þar sem ríkisvaldið hefur heimilað að selja jarðir tekur það ræktarland undan jörðunum og lætur landgræðslunni það í té.

Allt ferlið í þessu er mjög (Forseti hringir.) þungt í vöfum og erfitt og enn og aftur hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að fara nú hratt og vel í að leysa málið og gera það þannig að fólk geti vel við unað.