148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef haft mikinn áhuga á þessu máli eins og hv. framsögumaður og lagt fram ítarlegar fyrirspurnir, m.a. til fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og dómsmálaráðherra, um ábúð á jörðum í eigu ríkisins sem sýnir hversu dreift málið er í kerfinu. Ég á meira að segja enn ósvarað ansi mörgum spurningum úr fjármálaráðuneytinu sem kannski nýtast við þá vinnu sem fram undan er.

Við hljótum að vera sammála um að það er algerlega óásættanlegt að við sjáum jarðir bókstaflega fara í eyði bara vegna þess að stjórnsýslan klárar ekki sín mál. Það er fólk sem vill setjast að í sveitum en hefur ekki tækifæri til þess vegna þess að eigendastefnan liggur ekki fyrir. Á meðan eigum við að horfa til þess að hér eru í gildi bæði ábúðarlög og jarðalög. Meðan ekkert annað hefur verið ákveðið á að mínu mati auðvitað að fara eftir þessum lögum.

Þar er m.a. kveðið á um að auglýsa eigi jarðir. Það hefur ekki verið gert mjög lengi eins og hér hefur verið rakið. Það er mjög margt undir sem ekki hefur sérstaklega verið rætt eins og fjallskil og annað slíkt við jörð sem hefur farið úr ábúð.

Ég trúi því að við viljum öll hafa búsetu í blómlegum sveitum og nýta tækifærið til að rækta landið, vernda það og nýta á sjálfbæran hátt. Við erum að tala um samfélög fólks, oft á stórum svæðum. Við megum ekki gleyma því að ef mörg göt verða á þessum svæðum þýðir það eða getur þýtt að smám saman leggst búskapur af og úr verður órækt.

Við þurfum að gæta þess þegar eigendastefnan er sett að fjármunir ráði ekki einungis för, þ.e. að við förum ekki bara eftir hagstæðasta tilboðinu. Þá munu auðmenn halda áfram að kaupa jarðirnar fremur en venjulegt fólk. Auðmenn eru ágætir en það hlýtur að skjóta skökku við í byggðastefnu að selja frekar jarðir þeim sem búa ekki í samfélögunum en fólki sem vill búa þar.

Það sést á kortavefsjá ríkiseigna að við erum að tala um jarðir úti um allt land, í blómlegum sveitum, sem auðvitað á að selja aðilum sem ætla að búa þar. Það má ætla að hagur nærsamfélags sé sá að jarðirnar séu einfaldlega ekki seldar hæstbjóðendum. Við eigum að huga að því að gera eins og Norðurlandaþjóðirnar (Forseti hringir.) hafa gert, í löggjöf þeirra eru skilgreindar kröfur til landeigenda bæði um búsetuskilyrði og meðferð auðlindarinnar.