148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða hingað til og ég þakka fyrir hana. Það er eins í þessu og svo mörgu öðru að það er gott og mikilvægt að hafa langtímaáætlun. Forráð yfir landi er eitt elsta og mikilvægasta verkefni stjórnmálanna þannig að það er mjög slæmt að ríkisstjórnin og fyrri ríkisstjórnir hafi ekki séð sér fært að mynda góða langtímaáætlun um þetta.

Það er einnig ótrúlegt að enn sé ekkert heildstætt landupplýsingakerfi til sem sýnir hverja einustu landspildu og hefur tengingar í alla samninga og samþykktir sem þeim tengjast. Það er þó gott að heyra að þetta sé allt í vinnslu og horfi til betri vegar.

Ég tek undir með mörgum öðrum hv. þingmönnum um að umhverfis- og byggðaþættir skipti miklu máli í þessari meðferð. Ég get alveg samþykkt að í einhverjum tilfellum sé kannski eðlilegt að losa um þessar eignir, en það er mikilvægt að horfa til bæði menningar og sögu.

Þá held ég einmitt að það séu nokkur tækifæri sem eru helst til að nýta þessi lönd í. Ein ástæðan væri skógrækt sem margir hafa nefnt og það er ein helsta leiðin til að binda koltvísýring. Ef við ráðumst í stórfellda skógrækt er möguleiki að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins sem verður líklega ekki eingöngu gert með orkuskiptum og sennilega bara alls ekki. Það er ljóst að sektir vegna vanefnda við Kyoto 2 samninginn verða nú þegar háar þannig að það er um að gera að spýta í lófana hvað skógrækt varðar.

Þessu tengt eru miklir möguleikar í atvinnuuppbyggingu tengdri skógrækt og sjálfbærni í timbri sem drægi jafnframt úr innflutningi og yki möguleika okkar.

Umfram allt þurfum við að horfa til tækifæra í nýtingu ábúðarjarða, sérstaklega þeirra sem eru komnar í eyði í tengslum við uppbyggingu og nýsköpun í landbúnaði. Það er fullt af tækifærum, nýtum þau.