148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Aðeins að halda áfram þar sem frá var horfið. Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra eftir svörum um tímalínu eigendastefnunnar. Nú er þetta búið að vera lengi og eins og hæstv. ráðherra heyrir hvílir þetta þungt á þingmönnum þvert á flokka. Við viljum öll byggja hér upp öfluga eigendastefnu sem hefur það að markmiði að landið okkar sé í byggð, jarðirnar ræktaðar, til hvaða nota svo sem það er, hvort sem er til landbúnaðar eða uppgræðslu lands, skógræktar o.s.frv. Það skiptir máli að við getum fengið tímalínu. Svo ég tali fyrir mína parta vonast ég til að við sjáum mál hér áður en árið allt er á enda runnið.

Ég ítreka það sem við í Viðreisn höfum lagt mjög mikla áherslu á, það að við mótum almennar reglur um eigendastefnu að jörðum, hverjir það eru sem geta átt jarðir á Íslandi, og þá verða reglurnar að vera almennar.

Við töluðum hér fyrr í dag um alþjóðlegar skuldbindingar. Við getum ekki notað alþjóðlegar skuldbindingar eins og einhvern konfektkassa. Við verðum að virða þær. Þar gerum við líka ráð fyrir að ekki sé hægt að mismuna á grundvelli þjóðernis eða ívilna Íslendingum með einhverjum súrrealískum hætti. Við kunnum svo sem líka að búa til sérreglur sem eru sérstaklega ætlaðar ákveðnum hagsmunahópum. Ég vara við því.

Ég vil líka undirstrika að það er svigrúm fyrir okkur sem land sem vill halda áfram að byggja upp öfluga matvælaframleiðslu að taka tillit til þess þegar við mótum slíka stefnu. Við verðum að gera það í samvinnu við sveitarfélögin, það skiptir líka gríðarlega miklu máli að fá þeirra viðhorf af því að þau hafa áhrif á það hvernig landið okkar verður í byggð.

Getum við tengt þetta umhverfismálunum, einmitt skuldbindingum okkar varðandi loftslagsmálin? Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Ég hvet ráðherra til að hafa almennar og gegnsæjar reglur, (Forseti hringir.) reglur sem allir skilja og eru aðgengilegar öllum.