148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það fer vel á því að ræða frumvarp til laga um endurnot opinberra upplýsinga á svipuðum tíma og Alþingi er að opna upplýsingar í fórum þingsins, um ferða- og starfskostnað þingmanna. Þetta mál, alveg eins og þau viðbrögð Alþingis, er tímanna tákn. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi, það á að vera almenna reglan, nema eitthvað sérstakt mæli með því að þeim sé haldið lokuðum.

Hér var nefnt í framsöguræðu að um væri að ræða innleiðingu á Evrópureglum sem endurspegluðu í raun samræmdar lágmarksreglur og ég held að við ættum að hafa það hugfast. Við getum gert betur, við getum gengið lengra og mér finnst full ástæða fyrir þingnefndina til að taka þetta mál til alvarlegrar skoðunar og gá hvort ekki sé hægt að víkka rammann eins og hér hefur verið komið inn á í fyrri ræðum.

Það eru nokkur atriði sem mætti skoða sérstaklega. Fyrst langar mig reyndar að nefna hér eina setningu sem ég rakst á í 3. gr. frumvarpsins. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Opinberir aðilar skulu birta lista yfir gögn sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og þau skilyrði sem endurnot eru bundin.“

Mig langar að lesa til samanburðar aðra setningu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.“

Síðari setningin er úr frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár, 15. gr. um upplýsingarétt. Það er ánægjulegt að sjá að þótt við séum ekki komin með nýju heildarendurskoðuðu stjórnarskrána erum við skref fyrir skref að taka sum af þeim nýmælum sem þar komu fram inn í íslenskan rétt.

Bent hefur verið á 7. gr. frumvarpsins varðandi beiðni um endurnot upplýsinga. Ég velti því fyrir mér hvort hún stangist ekki í raun á við markmið laganna. Markmið laganna er að auka endurnot opinberra upplýsinga. Til þess að tryggja það viljum við að sem fæstir þröskuldar séu til staðar. Það að aðili sem vill nýta sér rétt sinn til endurnota opinberra upplýsinga þurfi að beina beiðni til aðilans sem hefur upplýsingarnar í vörslu sinni er þröskuldur sem við þurfum að íhuga alvarlega að víkja til hliðar. Líka vegna þess að það stangast á við þá reynslu sem er komin á opnun upplýsinga hér á landi nú þegar. Við erum að sumu leyti komin lengra en í þeim samræmdu lágmarksreglum sem birtast í frumvarpinu.

Þá langar mig að nefna leiðbeiningar varðandi endurnot upplýsinga á opingogn.is, gagnagátt sem því miður hefur legið nokkuð í láginni síðustu ár. Þar er einfaldlega opin heimild til endurnota. Það sama á við um Landmælingar Íslands sem frá árinu 2012 hafa veitt gjaldfrjálsan aðgang og mjög opinn að þeim upplýsingum sem eru í fórum stofnunarinnar. Þar er leyfilegt að endurnota upplýsingarnar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum án þess að þurfa sérstaklega að sækja um leyfi í hvert einasta sinn. Það skiptir máli af því að þessum upplýsingapökkum hjá Landmælingum, svo að dæmi sé tekið, er hlaðið niður mörg þúsund sinnum á ári. Ef hver og einn þeirra notenda þyrfti að sækja sérstaklega um leyfi til þess myndi það auka álag á stofnunina, það myndi draga úr þeirri nýsköpun og þeim sprotum sem gætu sprottið upp úr gögnunum og það er hreinlega ekki til þess að auka endurnot upplýsinganna.

Þetta vil ég einnig nefna varðandi 10. gr. frumvarpsins um gjaldtöku. Það kom fram í framsögunni að það ætti að vera síðasta leiðin sem farin yrði en mér finnst full ástæða til að skoða hvort ekki eigi bara að taka þetta út, hvort þetta sé ekki hvort eð er það lítill mögulegur gjaldstofn fyrir hið opinbera að það sé til þess vinnandi og sé framlag ríkisins til nýsköpunar sem byggir á þeim upplýsingum sem hér er hugmyndin að auka endurnot á. Svo ég nefni aftur Landmælingar var gjaldtökuheimildin í því tilviki 10 milljónir á ári. Ég held að þeir sprotar sem hafa vaxið upp úr þeirri opnun séu vel þess virði.

Mig langar að lokum að nefna annað sem tengist kannski þessu öllu. Í 9. gr. er t.d. talað um snið gagna, um að opinber aðili eigi að tryggja að upplýsingarnar séu aðgengilegar á ákveðnu sniði og gerðar eru tæknilegar kröfur til þess hvernig gögnin eru sett fram til að þau nýtist sem best. Svo að ég vísi enn og aftur til Landmælinga gegnir sú stofnun þessu hlutverki gagnvart grunngerð landupplýsinga, er ráðgefandi til þeirra sem hafa slík gögn í sínum fórum þegar kemur að því að birta þær upplýsingar opinberlega, til að þær séu sem aðgengilegastar. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé full ástæða fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvort eitthvert miðlægt apparat þurfi, einhvers konar stofnun eða bara aðila sem hefur það hlutverk innan Stjórnarráðsins að aðstoða stofnanir og opinbera aðila og hvern þann sem vill veita aðgang að opinberum upplýsingum, að veita þessum aðilum aðstoð við að frelsa gögnin; að vera með samræmda notkunarskilmála, að hjálpa til við tæknilega útfærslu á skráarsniði og að halda síðan utan um þennan miðlæga gagnabanka sem yrði þá væntanlega opingogn.is til þess að þetta verði allt jafn vel gert og allt með samræmdum hætti þannig að við séum ekki að finna upp hjólið á ótal ólíkum stöðum í einu sem er í sjálfu sér reyndin í dag þegar við erum t.d. með opnu gáttina opingogn.is, við erum með Landmælingar með svipaða notkunarskilmála og svo erum við, eins og ég nefndi, með Alþingi að birta upplýsingar um ferða- og starfskostnað okkar þingmanna en ég veit ekki hvaða notkunarskilmálar eru á upplýsingum sem dregnar eru út úr vef Alþingis. Hér þarf ósköp einfaldlega að líta yfir allt sviðið og bretta upp ermarnar.

Þetta er málaflokkur sem hefur verið að sigla upp á síðustu árum og við erum með ljósglætu hér og þar eins og opnun reikninganna í fjármálaráðuneytinu sem hafa komið á síðustu misserum. En við þurfum aðeins að bretta upp ermarnar og sýna meiri metnað ef við ætlum að vera með meira í höndunum en bara samræmdar lágmarksreglur. Eins og hér hefur komið fram getum við svo hæglega verið fremst í flokki meðal ríkja í að tryggja greiðan aðgang að upplýsingum í fórum opinberra aðila.