148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

200. mál
[17:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir ræðuna. Við höfum talað mjög mikið um útsvar og skiptingu þess í gegnum tíðina. Margar ástæður liggja þar að baki. Þetta er tengt ákalli sveitarfélaga um aukna og bætta tekjustofna. Við sem búum í hinum dreifðu byggðum heyrum ákall forsvarsmanna sveitarfélaga sem eru jafnvel að ráða til sín sumarafleysingafólk á stórum ferðamannastöðum. Ég tek sem dæmi Mývatnssveit þar sem fjölgar mjög verulega yfir hábjargræðistímann fólki sem kemur þar til vinnu vegna ferðamanna; fólki sem er með lögheimili annars staðar en nýtur þjónustu í sveitarfélaginu meðan það vinnur þar. Sveitarfélögin hafa jafnvel þurft að koma upp húsnæði til að geta hreinlega annað eftirspurn og sinnt þeirri ferðamennsku sem þar er verið að bjóða upp á.

Það er bagalegt þegar svoleiðis er, þegar að stórum hluta er um að ræða vinnuafl sem skilur ekki eftir sig neinar tekjur. Þess vegna hef ég verið hlynnt því að við skoðum með einhverjum hætti hvort hægt sé að skipta útsvarinu. Það getur eflaust verið snúið. Við hvað á að miða? Ákveðinn fjölda vikna sem viðkomandi er að störfum? Það þarf þá væntanlega að vera innan tiltekinna marka. Hver á sú prósenta að vera? Ég efast ekki um að þetta getur orðið snúið en ég held að þetta sé samt nokkuð sem við eigum að reyna að vinna með. Það er engin önnur leið betri til að mæta því þegar fólk er jafnvel farið að búa hálft ár á tilteknum stað, hvort sem það er í heilsárshúsi í Grímsnesinu eða í vinnu í einhverja mánuði einhvers staðar og á svo kannski fasta búsetu annars staðar, sem telst þá vera lögheimilið. Við vorum einmitt að afgreiða lögheimilisfrumvarp frá ráðherra, sem tekur m.a. til þessara mála að einhverju leyti, þ.e. hvar menn mega skrá sig. En þetta er snúið. Ég sé ekki að við getum farið einhverja aðra leið í gegnum skattkerfið sem beinlínis tengist sveitarfélögunum hvað þetta varðar.

Ég ætlaði svo sem ekki að hafa þetta neitt langt en mér finnst að þetta sé að aukast, að verða miklu meira um þetta. Það er í takt við tíðarandann, að reyna að hugsa um þetta ótengt því hvar lögheimili manns er eins og verið hefur. Við erum með fólk sem er búsett á tveimur heimshornum, hjón sem hafa jafnvel bæði þurft að flytja lögheimilið þannig að annar aðilinn gæti stundað vinnu. Þá lendir fjölskyldan kannski í erfiðleikum í búsetusveitarfélaginu vegna þeirrar þjónustu sem þar á að veita. Allt hangir þetta saman. Þau lög koma kannski til með að hanga svolítið saman við þetta.

Ég vona að málið fái góða umfjöllun í nefndinni. Það hefur verið mikið ákall í þessa veru. Ég trúi því að allir landsbyggðarþingmenn, sem hafa ferðast um kjördæmin sín, hafi fengið ábendingu um þetta. Sambandið hefur líka verið að ræða þessi mál þó að það sé snúið hvernig eigi að framfylgja þessu.

Ég vona að málið fái góða umfjöllun í nefndinni.