148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

200. mál
[17:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu til þingsályktunar og þekki mörg dæmi þess að fólk er með lögheimili í borginni en er ansi mikið í sínu sumarhúsi. Það er, trúi ég, grundvöllurinn að þessu máli. Menn eru meira og minna búsettir í sumarhúsum sínum sem eru orðin gerbreytt frá því sem áður var. Þetta eru orðin mjög vel byggð hús, ólíkt því sem var fyrir nokkrum áratugum þegar þetta voru hálfgerðir kofar og héldu varla vatni eða vindum. Þetta er gerbreytt eins og við þekkjum. Það er líka ein ástæða sem ber að nefna þegar rætt er um þetta mál: Húsnæðið er orðið eins og fínustu einbýlishús í borginni, eins og fólk býr hér, jafnvel betra.

Fólk dvelur líka mikið í þessum húsum, miklu meira en áður, vegna aðbúnaðar, og sækir jafnvel vinnu úr þessum bústöðum. Vegakerfið er orðið skárra. Þeir sem eru í sínum bústöðum í Grímsnesinu eða nær höfuðborgarsvæðinu stunda, margir hverjir sem ég þekki, vinnu meira og minna úr bústaðnum. Þarf ekki að koma neitt annað til en að það er orðið stutt og greiðfært þarna á milli. Það eru helstu ástæðurnar.

Það er engum vandkvæðum bundið að reikna þetta út ef einhver formúla yrði fundin í nefndinni miðað við að í dag er fólk að flytjast á milli lögheimila. Reiknuð er út skipting á sköttum þeirra á milli viðkomandi sveitarfélaga, það er einföld aðgerð í tölvu. Það þarf að finna lausn á þessu, einhverja útgönguleið, til að hjálpa sveitarfélögum sem eru að þjónusta þetta fólk sem þó greiðir einungis fasteignagjöld til viðkomandi sveitarfélags. Auðvitað er mjög ósanngjarnt að þessi sveitarfélög, sem eru kannski mjög fámenn, með gífurlegan fjölda af sumarhúsum, fá alls ekki nokkurn hlut af tekjusköttum þessa fólks. Þetta er réttlætismál að mínu mati. Þess vegna setti ég nú nafn mitt við þessa ágætu tillögu til þingsályktunar frá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur.

Ég vona að málið fái góða umfjöllun í nefndinni og góðan framgang.