148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú kemst ég í feitt, nú get ég útskýrt fyrir hv. þm. Óla Birni Kárasyni hvernig markaðurinn virkar. Hvað er ekki söluvara? spyr hv. þingmaður. Það er eðlileg spurning. Í raun er það alltaf söluvara sem einhver hefur áhuga á að kaupa. Ég ætla ekki að fara í framboðs- og eftirspurnarkenningar, ég held að hv. þingmaður myndi fljótt reka mig á gat í þeim.

En hér er einfaldlega verið að vísa til þess að ekki er endilega verið að tala um nýjustu bækur sem er að finna í hillum bókaverslana núna. Ég vísa hér, eins og mikið er gert í þessari þingsályktunartillögu, til reynslu Norðmanna. Þar miðuðu menn einfaldlega við árið 2000 og hugsuðu sem svo að bækur orðnar það gamlar væru ekki lengur söluvara á almennum markaði í þeim skilningi að þær fylli hillur bókaverslana.

Ég minni hv. þingmann hins vegar á það að á endanum er það eigandi höfundaréttarins sem ákveður hvort hann telur að bókin sín sé söluvara eða ekki. Ef eigandi höfundaréttar, höfundur eða hver sem á höfundaréttinn hverju sinni, telur að bók hans sé enn söluvara á markaði er honum í lófa lagið að taka viðkomandi bók úr þessum grunni. Þannig hafa aðeins 1,5% norskra eigenda höfundaréttar á bókum fyrir árið 2000 metið það sem svo að þeirra bækur væru enn söluvara á almennum markaði í þeim skilningi sem lagður er í þetta frumvarp og er grunnurinn að því verkefni sem vísað er í í hinni norsku þjóðarbókahillu. Við búum svo vel að það er tiltölulega nýbúið að vinna þetta verkefni þar, þannig að við getum sótt í þeirra reynslubanka.