148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt í lok umræðunnar taka aftur til máls og þakka þann góða stuðning sem hv. þingmenn hafa veitt tillögunni, bæði með því að vera meðflutningsmenn en einnig með ágætum ræðum sínum í umræðunni.

Ég er sammála öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að íslenskt prentmál sé varðveitt, að prentarfurinn okkar sé ekki bara varðveittur heldur gerður aðgengilegur.

Ég gerði það að leik mínum á meðan ég hlýddi á ágætar ræður og umræður að nýta mér akkúrat vefinn timarit.is, því að hér hefur verið notað orðið prentarfur. Hvenær ætli það hafi komið inn í íslenska tungu? hugsaði ég og sló því upp í timarit.is og fékk fyrstu færsluna frá árinu 1900 og aðeins tíu færslur, enda kom þar í ljós ákveðinn galli, því að verið er að skanna inn dagblöð og ég sló inn „prentarf“ af því að þetta var ekki til í nefnifalli. Það sem ég hélt vera prentarf reyndist vera prentari, í öllum tilvikunum. Þá prófaði ég að slá inn orðið stafrænn, af því að hér er talað um stafræna endurgerð. Og viti menn: Það er árið 1977 sem orðið stafrænn birtist fyrst í íslensku dagblaði. Það vitum við af því að timarit.is hefur skannað inn dagblöðin að stórum hluta og í Morgunblaðinu birtist frásögn af nýju mælitæki sem var rafrænt mælitæki, voltmælir, sjálf mælieining tækisins er stafrænn voltmælir, getur gefið niðurstöðuna sem þriggja stafa tölu og mælieiningin var notuð til að mæla umferð, þ.e. fjölda bíla sem óku yfir ákveðna brú.

Þetta er það sem við getum gert og ekki djúpt innlegg í umræðuna en við öll sem erum hér inni vitum að hægt er að nota á mun fjölbreytilegri máta.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom einmitt inn á það áðan í máli sínu að við sæjum ekki fyrir þá notkun sem opnun af þessu tagi myndi gefa. Ég kom aðeins inn á það í framsögu minni.

Í Noregi þar sem textarnir eru ljóslesnir inn hafa menn t.d. með stílmælingum á textum og skáldsögum talið sig finna út hver sé höfundur mjög umdeildra norskra bókmennta úr seinna stríði, hvar viðkomu nasistar og kynferðislegar athafnir sem ekki þóttu par penar og enginn vissi í raun hver hafði skrifað. Þar er í það minnsta rannsókn sem menn telja sig geta sagt hver höfundurinn er. Mér var bent á þetta þegar ég deildi þessari tillögu á samfélagsmiðlum.

Ég vil að endingu þakka kærlega fyrir þann stuðning sem ég finn við þetta verkefni. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að varðveita okkar arf, menningararf, því að það er það sem prentmálið er vissulega, og gera þetta aðgengilegt.

Ég er sammála því að gaman væri að miða við dagsetninguna 1. desember 2018. Þess vegna er hún sett — ég hef gaman af táknum hafandi skrifað fræðiritgerð mína um þjóðernistákn — og hún er vísvitandi valin, ég get upplýst það hér. Engu að síður vonast ég til þess að við gætum jafnvel verið komin það langt með málið að við gætum hreinlega verið að tilkynna um einhvern áfanga í málinu frekar en að kynna skýrsluna, af því að dagsetningin er á tillögunni. Vonandi er hægt að vinna þetta bara hraðar og tilkynna jafnvel um að verkefnið sé komið í gang á þeirri dagsetningu. Það væri óskandi.

Þetta er eitt af skrefunum sem ég tel að við þurfum að taka þegar kemur að því að varðveita íslenska menningararfinn. Það eru mörg fleiri verkefni. Ég held að við ættum t.d. í þessum sal að velta fyrir okkur þeim mikla menningararfi sem er varðveittur í safni Ríkisútvarpsins, sem ég tel að á sama hátt sé nauðsynlegt að fari fram stafræn yfirfærsla á. Ég vonast því til að við getum unnið saman að fleiri góðum verkefnum og vona að þessi tillaga hér verði að veruleika á þessu afmælisári.

Að lokum mælist ég til þess að þingsályktunartillagan gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.