148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

vopnaflutningar íslensks flugfélags.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að játa að ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að ég sem fjármálaráðherra eða eftir atvikum forsætisráðherra hafi átt að vita hvaða farmur var í einstökum flugvélum íslenskra lögaðila í útlöndum á milli landa. Hvert er hv. þingmaður eiginlega kominn? Heldur hann virkilega að fjármálaráðherrann sé að fara yfir farmskrárnar?

Þetta er algerlega rakalaus áburður sem hér er færður fram. Það er augljóst að það hefur aldrei verið á mínu borði að fara yfir þau stjórnsýslulegu atriði sem þarf að gá að í þessum málum. Þetta hélt ég að hefði komið ágætlega fram í athugun utanríkismálanefndar. Ég ítreka það sem ég segi: Reynum nú að halda aftur af okkur með skítkast milli flokka sem mér finnst hv. þingmaður fara (Forseti hringir.) beint í og leggjum þeim mun meiri áherslu á að skilja eðli þessa máls og spyrja réttu spurninganna um stjórnsýslulegar ákvarðanir.