148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

bankakerfið.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vænti þess að við fáum tækifæri til að taka ítarlegri umræðu um þessi mál á þriðjudaginn í sérstakri umræðu frá hv. þingmanni. Þegar við áttum orðastað síðast benti ég á að stöðugleikasamningarnir á sínum tíma hefðu ekki verið birtir. Síðan þá hafa þeir verið birtir, öllum almenningi til aðgengis. Um það hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Þar kemur skýrt fram hvernig þessum málum er háttað í stöðugleikasamningunum, þ.e. að arðgreiðslur fara annars vegar inn á skuldabréfið upp á 84 milljarða, sem nú standa eftir 35 milljarðar af, og hins vegar inn á fjársópsákvæðin sem skilgreind eru í stöðugleikasamningnum eftir ástæðu arðgreiðslnanna. Þetta ætti hv. þingmaður sem tók þátt í gerð þessara stöðugleikasamninga að þekkja betur en nokkur annar hér í salnum.

Fyrst hv. þingmaður spyr hvernig málin standi þá þekkir hann auðvitað mætavel allan þann grunn sem það sem er að gerast núna byggir á, hluthafasamkomulagið, samþykkt Alþingis 2010, samþykkt Alþingis 2012, stöðugleikasamningana sem byggðu á stöðugleikaskilyrðunum sem hafa nú verið birtir þannig að allir geti kynnt sér þetta, sem gera ráð fyrir að hagsmunir annarra hluthafa og ríkisins muni í raun og veru fara saman í að hámarka virði bankans. Um það snúast væntanlega almannahagsmunir, þ.e. að ríkið fái sem mest virði fyrir sitt framlag til bankans annars vegar og hins vegar í kringum stöðugleikasamningana.

Þannig er málið vaxið. Það hefur nú verið birt af hálfu fjármálaráðuneytisins sem fer með þetta mál að áætlaður fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs vegna Kaupþings/Arion banka sé um 150 milljarðar kr. Ég held að þetta skýri ágætlega stöðu málsins.