148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

bankakerfið.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég mun gera ýmsar athugasemdir við þetta svar hæstv. ráðherra í sérstakri umræðu, eins og ráðherra nefndi, ég hef ekki tíma til þess hér á einni mínútu, en vil frekar nota þá mínútu til að spyrja um annan banka, Landsbankann, og áform þess banka, ríkisbankans, um að byggja gríðarstórar höfuðstöðvar á líklega dýrustu lóð landsins hérna skammt frá í miðbænum, lóð sem er miklu stærri en lóðin sem bankinn hugðist byggja á þegar Landsbankinn átti að vera einhvers konar alþjóðlegur stórbanki og ætlaði að byggja sér höfuðstöðvar í Reykjavík. Það var á minni lóð en bankinn ætlar að byggja á núna. Og húsið minna en það sem ríkisbankinn, Landsbankinn, ætlar að byggja núna, á tímum þegar eru að verða algerar grundvallarbreytingar í bankaþjónustu, þegar ljóst er að umfang bankaþjónustu eða yfirbygging mun minnka. Auk þess er ljóst að fyrir dyrum er veruleg endurskipulagning bankans. Það stendur til að selja stóran hlut í bankanum og endurskipuleggja starfsemi hans.

Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um að á þeim tímapunkti ætli ríkisbankinn, Landsbankinn, að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins, stærri höfuðstöðvar en (Forseti hringir.) Landsbankinn hugðist byggja árið 2007?