148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held til haga ákveðnum lista yfir stöðu mála og fór yfir það síðast þegar talað var um þetta. Eftir því sem ég tók saman í fyrradag biðu 17 mál afgreiðslu, 1. umr. eða fyrri umr. Af þeim voru fjögur frá ráðherrum, sem eru þá tvö núna því að tvö voru kláruð í gær. Eitthvað var klárað af öðrum málum en tölurnar í gær voru upp á sex frá þingmönnum meiri hlutans og sjö frá minnihlutaþingmönnum, alls 17, sem hefur þá fækkað síðan um gær. Það eru ekkert mörg mál sem bíða fyrri umr. og 1. umr. Eftir það er dagskráin bara búin og hvað eigum við að gera þá? Aflýsa þingfundum? Það verður mjög áhugavert að sjá.

Mig langaði líka að vekja athygli á því, af því að talað er um hversu mikla áherslu sé verið að leggja á hagkerfið í framtíðinni o.s.frv., að fjármálaráðherra sagði áðan að það væri eitthvert markmið í nýsköpun. En þegar við kíkjum í frumvarp til fjárlaga er þar hækkun um 0,2% til nýsköpunar. Ég vil endilega fá einhver frumvörp sem sýna fram á að alvöruáhersla sé lögð á nýsköpun af þinginu og ríkisstjórninni, því að hana er ekki að finna í fjárlögum.