148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[11:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þarf aðeins að útskýra þá breytingu sem hefur orðið á þessari skýrslubeiðni frá því fyrir rúmum mánuði. Aðalbreytingin er að skýrslubeiðninni er beint að hæstv. forsætisráðherra sem skuli sjá um að kalla eftir upplýsingum frá öllum viðeigandi aðilum sem ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis beinast að, að samræma verklag og framsetningu upplýsinga þingi og þjóð til upplýsingar.

Breytingin er góð á þann hátt að skýrslubeiðnin nær yfir allar ábendingar rannsóknarskýrslunnar en ekki bara til þeirra sem beinast að fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra, en það var upprunalegur tilgangur skýrslubeiðninnar auðvitað, en ráðuneyti koma sér oft hjá því að svara ef það er ekki skýrt að spurningin beinist bara að þeirra verkefnasviði. Þetta er almennt séð vandamál, t.d. í fyrirspurnum til ráðherra. Ef spyrja á alla ráðherra að einhverju verður að senda sérstakt eintak á hvern ráðherra í staðinn fyrir að geta sent bara eitt á alla.