148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[11:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég féllst á að vera með á þessari skýrslubeiðni þegar hv. flutningsmaður Björn Leví Gunnarsson kom að máli við mig af því að ég er talsmaður þess að við sinnum eftirfylgni á þeim samþykktum og skýrslum sem gerðar hafa verið. Ég var ekki á landinu þegar umræður fóru fram um þá skýrslubeiðni, ég var að sinna erindum fyrir Norðurlandaráð í Stokkhólmi, en ég verð hins vegar að segja, hæstv. forseti, að mér kom töluvert á óvart að sjá nafn mitt á þessari skýrslubeiðni hér og nú vegna þess að ég hef ekki — það er ágætt að hv. flutningsmaður útskýrði breytingarnar því að hann hefur ekki gert það á nokkurn hátt við mig sem er þó meðflutningsmaður að skýrslubeiðninni. Ég hlustaði á hv. þingmann tala um samráð og ég hef ekki sem meðflutningsmaður fengið neitt samráð um þær breytingar sem hafa orðið hér.

Látum það þó vera, ég vildi bara koma á framfæri athugasemd um að ekki væri verið að breyta textum án samráðs við meðflutningsmenn, a.m.k. mann, ég veit ekki með aðra. Hins vegar er málið bara orðið hið ágætasta mál og ég hef ekki (Forseti hringir.) neinar athugasemdir við það að nafn mitt sé á þessari skýrslubeiðni. Ég óska þó eftir að við sýnum hvert öðru samráð og að þau sem kalla eftir samráði sýni það líka.