148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Rannsóknarnefndin sem var sett á fót og gaf út skýrslu um bankahrunið hafði eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Þar voru tillögur um hvað þyrfti að laga af því að margt fór úrskeiðis. Við vitum ekki hvað framkvæmdarvaldið er raunverulega búið að gera af þeim ábendingum sem þar komu fram og hefur verið vísað til ráðuneytisins í gegnum þessa skýrslu, eftirlit með framkvæmdarvaldinu, þar sem sagt er að við eigum að gera þetta betur eða gera ákveðna hluti.

Við vitum ekki fyllilega hvað hefur gerst og þetta er bara partur af því lögbundna eftirlitshlutverki þingsins að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu með því að beina til ráðherra beiðni um skýrslu um samantekt á þessum þáttum, um ábendingar úr þessari dýru, mikilvægu skýrslu rannsóknarnefndarinnar um hvað framkvæmdarvaldið hefur gert.

Hvort þingið spurði sérstaklega hvort við værum búin að gera þetta og hitt og tíndi það sjálft út úr skýrslunni, ókei, það er alveg rétt hjá fjármálaráðherra að þingið hefði alveg getað gert það, en nú erum við að biðja ráðuneytið að taka saman hvernig upplifun ráðuneytisins gagnvart þessum ábendingum hefur verið, (Forseti hringir.) hvaða ábendingar ráðuneytið hefur tekið saman og ákveðið að gera það. Er það í samræmi við það sem stendur í skýrslunni? Þetta er mjög eðlilegt eftirlitshlutverk, mjög þarft og það er gott að við ætlum að samþykkja beiðnina.