148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í sjálfu sér standa þær efnislegu athugasemdir sem ég gerði þegar þessi skýrslubeiðni var hér áður, hún er óbreytt að forminu til. Ég tel og taldi þá að það væri betri bragur á því að Alþingi Íslendinga héldi utan um þessa skýrslubeiðni, að við samþykktum að við værum að fara í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og það með hvaða hætti framkvæmdarvaldið hefði fylgt eftir og framkvæmt þær ábendingar sem koma fram í þeirri skýrslu. Mér finnst það miklu betri bragur og miklu meiri virðing. Það er spurning um sjálfstæði þingsins í staðinn fyrir að fela framkvæmdarvaldinu eitthvert slíkt eftirlitshlutverk. Það kemur mér svo á óvart að það skuli vera þingmenn Pírata sem leggja fram beiðni um að fela (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldinu að gera það. Ég ætla ekki að standa í vegi fyrir þessari skýrslubeiðni en bara minni á að bragurinn er ekki góður.