148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir mjög góða ræðu þar sem hann fór yfir ýmis sjónarmið í þessu og hvað togast á. Hún var heimspekileg og söguleg á köflum.

Ég held að mér sé farið eins og mörgum öðrum. Maður er ekki alveg 100% viss um hvað er rétt að gera í málinu. Það sem mér fannst athyglisvert í ræðu hv. þingmanns voru orð hans um áhrif klerka. Þá á ég auðvitað við rabbína og ímama og hvað þeir heita nú í öllum þessum trúarbrögðum. Ég held að þessi áhrif hér á landi séu orðin hverfandi. En þetta eru leifar af þessu kerfi þar sem klerkarnir halda utan um söfnuðina og þeir stýra för. Ég er ekki alveg endilega viss um (Forseti hringir.) að það sé allt saman gert af innri trúarsannfæringu viðkomandi sem þurfa að beygja sig undir klerkavaldið, (Forseti hringir.)hver í sínum trúarbrögðum. Mér þótti það mjög athyglisvert.