148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir mjög skörulega og góða ræðu. Hann dró það svo vel fram, útskýrði það á sinn einstaka hátt, að um er að ræða réttindi barnsins. Með því að verja réttindi barnsins með lögum sem þessum er ekki verið að ganga gegn trúfrelsi fullorðinna einstaklinga. Fullorðnir einstaklingar munu samt sem áður hafa frelsi til að ástunda sín trúarbrögð og börnin líka þegar þau hafa aldur til að fara í aðgerðir ef þau vilja breyta sér á einhvern hátt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um refsirammann og framlagninguna á þessu. Sú sem hér stendur var í svolitlum vandræðum með það, ef satt skal segja, hvernig koma ætti þessu fyrir. Mig langar til að heyra hvaða hugmyndir þingmaðurinn hefur um hvort það væri rétt að hafa 218. gr. b, tiltaka þá sérstaklega umskurð á drengjum og vera með annan refsiramma fyrir drengi og hver mögulega sá refsirammi ætti að vera, mögulega minni sektarákvæði eða hvernig sem það væri. Mig langar aðeins að heyra hugmyndir þingmannsins (Forseti hringir.) um það.