148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:39]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson erum sammála um að það er vandratað og við leggjum traust okkar á nefndina til að finna út úr þessu en mér heyrist við sammála um að okkar hlutverk sem löggjafa sé að verja réttindi barna og uppfylla þá sáttmála sem við höfum lögleitt nú þegar er varða réttindi barna, mannréttindi og annað sem því fylgir.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er eðlismunur á þessum aðgerðum. Hins vegar má segja að umskurður á stúlkum sé í ákveðnum misalvarlegum stigum, en í öllum tilfellum er um að ræða aðgerðir á börnum, sársauka, áhættu og brot á réttindum þeirra. Mér verður stundum í þessari umræðu allri hugsað til þess hvort hún eigi að fara að snúast um það hvort kynið við meiðum meira. Meiðum við strákana meira? Meiðum við stelpurnar meira?

Í báðum tilfellum eru aðgerðirnar (Forseti hringir.) óafturkræfar og áhættusamar. Intersexumræðan er einmitt umræða sem við þurfum líka að taka en ég skildi hana eftir vísvitandi vegna þess að hún er líka flókin. Tökum eitt í einu.