148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:48]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir mjög góða ræðu. Hér er flutt hver ræðan á fætur annarri sem er innblásin og góð, það er mjög gott.

Ég er enn þá svolítið á þessum slóðum að ég er örlítið ráðvilltur, en ég átta mig á því að við erum hér að tala um rétt barnsins, við erum að tala um rétt foreldra og eitthvað sem er óafturkræft, svo blandast þetta allt saman inn í trúarbrögðin. Við erum hér að tala um óafturkræfa hluti sem varða það að fikta í líkama sveinbarna í þessu tilviki, en við fiktum líka í sálarlífi barna.

Þjóðkirkjan hefur verið nefnd. Þar t.d. skírum við börn sem eru ómálga og við skráum þau inn í söfnuð af því að foreldrarnir hafa einhverja tiltekna trú. Það er auðvitað frægt dæmi um mann sem vildi láta ógilda skírn sína og þjóðkirkjan, hin milda, gat ekki (Forseti hringir.) með nokkru móti fengið sig til þess að ógilda skírnina fyrir þennan einstakling, en meira og minna allt hans líf snerist um að ógilda hana. Eigum við þá ekki að banna að skíra ómálga börn og láta skírnina bíða síðari tíma?