148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni og hef þar af leiðandi skilning á því af hverju hún hefur sett þetta upp með þessum hætti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur boðað frumvarp um intersex og þegar sú vinna stóð yfir hér á síðasta kjörtímabili sat ég alla vega einn fund með hópi þingmanna sem hafði hug á að vera með í slíku frumvarpi. Ef ég man rétt þá var þar verið að tala um blátt bann við því að eiga við kynfæri barna með einhverjum hætti ef ekki væru fyrir því læknisfræðileg rök. Eins og hv. þingmaður segir þá kann vel að vera, og það hefur kannski komið fram í umræðunni í dag, að þetta mál þurfi að þroskast eitthvað; að þessi umræða sé af hinu góða, en það þurfi kannski enn frekari þroska, bæði út í samfélaginu og hér innan þings. Það má líka velta því fyrir sér hvort það frumvarp, þegar það kemur fram, taki mögulega á þessu máli. Þá kann líka að vera mjög gott að við séum búin að taka þessa umræðu um umskurð drengja áður en að því kemur, því það verður eflaust enn flóknara og þar koma enn önnur álitamál upp, önnur en þau sem lúta að því — sem er þó mjög stórt mál og veigamesti þátturinn í þessu, held ég — að eiga við líkama barna á óafturkræfan hátt. Ég hallast að því að það séu stærstu rökin í málinu.

En eins og allir aðrir sem hafa tjáð sig hér í dag þá áttum við okkur á því að um býsna flókið mál er að ræða og full ástæða til að gefa ákveðið rými fyrir umræðuna, bera virðingu fyrir skoðunum allra sem kunna að tjá sig um málið. En stóra málið finnst mér líka vera það að Alþingi Íslendinga getur ekki og á aldrei að sætta sig við það að aðrir aðilar segi að þetta sé ekki mál sem megi ræða hér inni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)