148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að mæla fyrir þessu máli; þetta er mjög áhugavert mál í marga staði. Hér takast á mismunandi sjónarmið varðandi mörk trúfrelsis og mannréttinda, með hvaða hætti við eigum og megum grípa inn í með löggjöf þegar kemur að þessum mikilvægu þáttum sem við viljum virða. Mér finnst mjög mikilvægt í upphafi umræðunnar, sem mér finnst almennt hafa verið mjög góð, að við gætum okkar á því að fordæma ekki siði eða hefðir með einhverjum hætti en á sama tíma megum við heldur ekki óttast að stíga inn og segja hvar við teljum eðlilegt að mörk séu dregin. Mér finnst hafa náðst hér góð samstaða um að við viljum draga þessi mörk hvað varðar börn og sjálfsákvörðunarrétt barnanna sjálfra, þ.e. að ekki séu gerðar óafturkræfar aðgerðir á börnum, sérstaklega á viðkvæmum stöðum eins og kynfærum þeirra, án þess að þau séu komin til vits og ára og geti sagt til um vilja sinn í málinu.

Ég hef ákveðnar efasemdir bæði varðandi refsiramma og hvar þetta eigi heima í lögunum. Á þetta heima í almennum hegningarlögum? Hver ætti refsiramminn að vera? Eða ættum við að nálgast málið á annan hátt? Ég tel mikilvægt að þingið og nefndin gefi sér góðan tíma til að ræða það, þegar komið er út í umræðu um málið, hvar og með hvaða hætti lagaákvæðum sem þessum verður best við komið.

Það væri mjög áhugavert, í ljósi umræðunnar sem hér hefur verið samhliða, um málefni intersex-barna, að við nálgumst þetta mál með almennari hætti en hér er gert. Ég sé í sjálfu sér ekki eðlismun á þeim tveimur málum og í ljósi þess að í bígerð er frumvarp hjá heilbrigðisráðherra sem snýr að málefnum intersex-barna — að reisa skorður við aðgerðum á kynfærum þeirra ef brýna nauðsyn ber ekki til — færi kannski á endanum vel á því að sameina þessi mál.

Við þurfum líka að gæta þess í umræðu okkar, í þeim skorðum sem við reisum, að ekki sé verið að skerða frelsi til ólíkra siða eða hefða þegar fram í sækir, þ.e. að við séum fyrst og fremst í þessari umræðu að einbeita okkur að því að vernda barnið, tryggja réttindi þess, tryggja að barnið á síðari stigum sem stálpaður einstaklingur fái aðkomu að ákvörðun sem þessari. Að sjálfsögðu hefur fólk fullt frelsi til trúarbragða og hverra þeirra hefða eða siða sem þeim fylgja. En mér sýnist góður samhljómur um það hér í þingsalnum að þar eigi einmitt að draga línuna, að það sé alveg ljóst að barnið eða einstaklingurinn geti haft um það að segja hvort gripið sé til aðgerða af þessu tagi. Mér þætti áhugavert að heyra í hv. þingmanni og framsögumanni hvort það hafi eitthvað verið rætt við undirbúning þessa frumvarps hvar mætti draga slíka línu, hvort ætti að draga hana eða hvort við verðum einfaldlega að miða við að slíkar aðgerðir, kjósi einstaklingur að gangast undir þær, séu óheimilar fram að 18 ára aldri, fram að sjálfræði.

Ég hef ákveðnar efasemdir um að leggja algerlega að jöfnu umskurð drengja og það sem við höfum í alvörunni kallað kynfæralimlestingar stúlkubarna. Ég held að við þurfum að horfa á þetta öðrum augum frá sjónarhóli karla, telja verulegan eðlismun á þessu tvennu, en þó aftur með fullri virðingu fyrir því að það ber að vernda rétt barnsins í þessu því að þetta er vissulega óafturkræf aðgerð. Umskurður er mun umfangs- og áhrifaminni aðgerð á drengjum en það sem snýr að kynfæralimlestingum á stúlkubörnum. Kannski er ágætt að hafa í huga að viðhorf mannréttindasamtaka til þessara tveggja aðgerða eru mjög ólík. Viðhorf Sameinuðu þjóðanna til umskurðar drengja og umskurðar stúlkna eru gerólík. Sameinuðu þjóðirnar berjast hatrammlega, eðlilega, gegn kynfæralimlestingum stúlkna. En síðast þegar ég vissi var enn verið að hvetja til umskurðar karla. Ég tek fram: karla, og þá er um að ræða forvörn gegn eyðnismiti til dæmis. Ég fletti því upp að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðhæfir enn að það hafi töluverð áhrif, til að draga úr hættu á smiti, að karlar séu umskornir. Ég held að við verðum að horfa til þess að viðhorfin eru þarna talsvert ólík. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt og heilbrigt að ramma þessa umræðu frekar inn í það að við séum að verja rétt barnsins, réttindi til þess að á því sé ekki framkvæmd óafturkræf, ónauðsynleg aðgerð, hvaða nafni sem hún nefnist, hvort heldur sem um er að ræða aðgerðir á intersex-börnum eða umskurð drengja. Það er ástæða til þess, með hliðsjón af framangreindu, að gera greinarmun á þessu tvennu, kynfæralimlestingum stúlkubarna og kvenna og umskurði karla. Við þekkjum til siða í Bandaríkjunum, sem við berum okkur oft saman við, þar sem ég hygg að mikill meiri hluti karla sé umskorinn og án þess að ég heyri þessa háværu umræðu þar.

Ég tek fram að ég styð þá hugsun sem er í málinu og hefur fundist mjög áhugavert að fara í gegnum það. Þegar það kom fyrst fram var ég mjög tvístígandi í afstöðu til þessa máls, hvar línurnar lægju í þessu, hvar mörkin liggja milli trúfrelsis og mannréttinda, milli hagsmuna barnsins og forræðisréttar foreldra. Það á við á fleiri sviðum. En þegar maður reynir að nálgast afstöðu í svona máli finnst mér einfaldast að nálgast það út frá hagsmunum barnsins, réttindum þess, rétti barnsins til að vera varið gegn óafturkræfri aðgerð sem það fær ekki tækifæri til að taka afstöðu til. Þar finnst mér eðlilegast að draga línuna. Refsiákvæðin, hvar þau eiga heima í löggjöfinni, er annað álitaefni. Eiga þau heima í hegningarlöggjöf eða annars staðar, barnalögum eða hvar annar staðar? Og svo aftur: Er í refsirammanum eðlilegt að gera greinarmun á milli stúlkubarna og sveinbarna? Mér finnst við fyrstu sýn ekkert óeðlilegt að það sé skoðað mjög gaumgæfilega. Ef við horfum á sjónarmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og áherslur Sameinuðu þjóðanna standa rök til þess að þarna megi gera greinarmun á.

Mér hefur fundist mjög jákvætt viðhorf og stuðningur við málið hér í þinginu og ég vona að frumvarp um málefni intersex-barna hljóti sambærilegan stuðning hér í þinginu þegar þau verða tekin fyrir. Vonandi mun hæstv. heilbrigðisráðherra leggja það mál fram sem fyrst. Ég held að þau séu af nákvæmlega sama meiði og þingið eigi að nálgast þau á nákvæmlega sama hátt. Kannski er þetta góða mál til þess fallið að ryðja brautina fyrir málefni intersex-barna fram veginn. Ég bíð spenntur að sjá hvernig málinu vindur fram í nefndinni en legg áherslu á að ég held að rík ástæða sé til þess fyrir þingið að taka sér góðan tíma og vanda sig sama í hvaða umgjörð við setjum þetta. En ég er viss um, miðað við þá góðu umræðu sem hér hefur verið, að okkur tekst að finna málinu góðan farveg.