148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og get svo sem tekið undir margt sem fram kom í henni. Mörg okkar hér inni höfum verið að velta vöngum yfir því hvar eigi að taka á þessum málum. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að hann teldi að taka ætti á þessu með sama hætti og því sem við væntanlega ræðum hér fljótlega um intersex-fólk og aðgerðir á intersex-börnum. Talandi um eðlismun á ég líka svolítið erfitt með að segja að svona mikill eðlismunur sé á því að eiga við kynfæri stúlkubarna eða drengja. Jú, það er rétt að þessar aðgerðir á kynfærum kvenna hafa verið fordæmdar af alþjóðasamfélaginu og eru auðvitað tær hrottaskapur. Það er þó einhver stigsmunur á þeim ef hægt er að segja svo. En þá er líka spurningin: Er það kannski bara vegna þessarar menningar og hefðar varðandi umskurð sem okkur finnst að það sé svo mikill eðlismunur á þessu tvennu?

Í annan stað eru börn sem fæðast með skýr kyneinkenni og við segjum: Það má ekki eiga við kynfæri þessa barns, en það má með þetta barn. Intersex-barn fæðist með óskýr kynfæri og samt má eiga við það eða ekki eftir því hvernig við afgreiðum það mál — ég verð að viðurkenna að ég á í svolitlum erfiðleikum með að setja þetta í svona box og segja að mikill eðlismunur sé á, hvað sé rétt og hvað rangt í þeim efnum.