148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég segi eins og er að mér finnst þetta vera álitaefni sem við þurfum að skoða. Það er alveg ljóst að viðhorf alþjóðastofnana til þessara tveggja aðgerða eru mjög ólík. Ég held líka, með fullri virðingu, að afleiðingarnar séu verulega ólíkar, alla vega þegar við tölum um kynfæralimlestingar á stúlkum eða konum í sinni verstu mynd; það er algerlega himinn og haf þar á milli. Vafalítið má færa rök fyrir því að verknaðurinn sé með einhverjum hætti hinn sami. Kannski er umræðan sem slík, um hvort lagaákvæði eða refsirammi eigi að vera ólík, óþörf ef við göngum út frá því að aðgerðir af þessu tagi séu ekki gerðar nema einstaklingurinn sé kominn til vits og ára og geti lýst skoðun sinni á því. Þá væri ekki verið að gera slíka aðgerð nema með samþykki. Þar liggur kannski hundurinn grafinn í þessu.

Auðvitað hafa hefðir og venjur, trúarbrögð að einhverju marki, áhrif í þessu en ég horfi til dæmis til þess sem maður upplifir í samtölum við karla í Bandaríkjunum þar sem þetta er mjög algengt — ég held að ég hafi rekist á tölur um að 70% karla þar, að því er talið væri, væru umskorin og þar er umræðan ekki á þann veg að um sé að ræða einhvers konar meiri háttar brot gegn þeim.

Mér finnst rauði þráðurinn liggja í því að barnið, einstaklingurinn sem í hlut á, hafi eitthvað um málið að segja og að ekki sé gerð óafturkræf aðgerð án þess að samþykki liggi fyrir. (Forseti hringir.) Spurningin er þá hversu háum aldri einstaklingurinn þarf að hafa náð til að veita slíkt samþykki.