148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að spurningin snúist fyrst og fremst um rétt barnsins, að ekki séu gerðar óafturkræfar aðgerðir á börnum að þeim forspurðum. Þá er einmitt komið inn á á spurninguna um það hvaða tímapunkt hægt er að miða við. Er það þegar börn hætta að vera börn, 18 ára gömul? Eða yngri? Hvenær er barnið tilbúið til að taka slíkar ákvarðanir? Þá er ég kannski að tala svona heilt yfir.

Ég velti því fyrir mér í þessari umræðu hvort það hefði áhrif á okkur ef við værum að ræða intersex-frumvarpið og aðgerðir á kynfærum barna, ekki sérstaklega í umræðunni um umskurð og þar af leiðandi ekki sérstaklega að fjalla um trú og hefðir, heldur bara það grunnprinsip að við erum að tala um óafturkræfa aðgerð á barni. Liði okkur þá öllum miklu betur og værum við miklu meira sammála um það?

Svo er spurningin ef við erum öll sammála um að það megi ekki, hvað gerum við þá? Með hvaða hætti bönnum við það? Hver er þá refsiramminn? Það flækir málið töluvert þegar inn í það blandast trú. Við erum fjölmenningarlegt samfélag og ég geri ráð fyrir að við séum flest sammála um að við viljum vera það áfram og virða trú og hefðir annarra hópa, en á sama tíma viljum við að viðkomandi aðilar uppfylli íslensk lög.