148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson spurði áðan hvort hugað hefði verið að því að draga einhverja línu um aldurstakmörk við gerð frumvarpsins. Sú sem hér stendur velti því fyrir sér en ákvað að láta slíka umræðu þinginu eftir. Við erum með annars konar lög, heilan frumskóg. Þegar við förum í svona skoðun er mikilvægt að hafa aðra ramma og bera saman svo að samræmi sé í löggjöfinni í þessum hlutum. Ég vildi fara varlega í að nefna tölu um aldurstakmörk.

Eins og ég hef áður sagt er refsiramminn líka eitthvað sem ég í sjálfu sér get ekki kveðið upp úr um, að sex ár sé réttur tími. Þess vegna er svo mikilvægt að þingið skoði þetta. Ég velti fyrir mér stjórnarskrá Íslands, að við skulum öll vera jöfn gagnvart lögum, óháð kyni, kynþætti og öðru slíku. Kæmumst við upp með það lagalega séð að hafa mismunandi refsingar fyrir sambærilegar aðgerðir á stúlkum og drengjum? Mér lögfróðari menn verða að skera úr um það. Það þarf örugglega að fara í stjórnarskrána og önnur lög til að átta sig á því.

Mig langar til að segja varðandi þessar alþjóðlegu stofnanir sem hafa ekki enn beitt sér af krafti, eða fæstar, fyrir því að banna umskurð á drengjum. Ég hef velt því fyrir mér og held að ég viti hvert svarið er. Ég held að það sé vegna trúarbragðanna. Því er enn haldið fram að slíkt bann bryti gegn trúfrelsi. (Forseti hringir.) En ég held að mannréttindalögfræðingar hafi sýnt fram á að svo sé ekki. Ég held að við séum ákveðnir brautryðjendur í þessari umræðu.