148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er flutningsmaður á málinu. Ég ætla að fara yfir það hvernig ég nálgast það, hvað það er sem réttlætir það fyrir mér. Ég hef líka verið að hlusta á þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðum í samfélaginu, en það hafa verið mjög góðar umræður. Það þarf að vaða svolítið í gegnum þær en fram hafa komið mörg góð sjónarmið sem maður þarf að taka tillit til.

Ég ætla að fara í gegnum það hvernig ég hef forgangsraðað afstöðu minni í málinu og mun gera áfram. Ef trúariðkun brýtur réttindi barna lít ég svo á, miðað við þá túlkun sem ég hef fengið upplýsingar um varðandi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er lögfestur á Íslandi, að við séum skuldbundnir sem þingmenn til að láta barnið njóta verndar. Ef einhver ætlar að segja mér að þetta varði ekki þann sáttmála vil ég heyra rök þar um. Meðan ég er fullviss um að þetta varði við barnasáttmálann er ég skuldbundinn samkvæmt lögum til að framfylgja honum og láta barnið njóta vafans.

Í samnorrænni yfirlýsingu umboðsmanns barna og heilbrigðisstarfsfólks á Norðurlöndum gegn umskurði ungra drengja 2013 kemur fram, með leyfi forseta:

„Umskurður á ungum börnum brýtur gegn grundvallarréttindum barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum.“

Undir þetta skrifar umboðsmaður barna á Íslandi, formaður Félags barnalækna á Íslandi, yfirlæknir barnaskurðlækninga á Barnaspítala Hringsins og fulltrúi Barnaskurðlækningafélags Íslands og yfirlæknir barnalækninga á Barnaspítala Hringsins.

Umboðsmaður barna, sem á að tryggja að við fylgjum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og helstu aðilar sem hafa helgað líf sitt því að hugsa um líkamlega heilsu barna eru sammála í þessum efnum. Það getur enginn litið fram hjá þessu.

Við skulum halda áfram og heyra fleiri sjónarmið í málinu. Þarna er ég í dag. Ég læt þetta vega þyngra en allt annað sem ég hef heyrt í umræðunni. En ég ætla að fara yfir það. Það vegur salt í huga fólks að annars vegar erum við að tala um réttindi barns og sjálfsákvörðunarrétt þeirra varðandi líkama sinn, að þurfa ekki að gangast undir óafturkræfar aðgerðir að óþörfu, og hins vegar um trúarleg réttindi, að ákveðinn trúarbókstafur eða trúarreglur, sem hefð er að fylgja, skuli gilda. Það er tekist á um þetta.

Þá skipta nokkur atriði máli. Byrjum á að ímynda okkur að þessi trúarlegu atriði væru ekki inni í myndinni. Um hvað væri þá verið að ræða? Þá værum við að ræða um réttindi barnsins til að verða ekki fyrir óafturkræfum aðgerðum að óþörfu. Það væri það sem við stæðum frammi fyrir. Og ég sé ekkert sem gæti vegið þyngra en það, hefð myndi ekki ná því.

Þetta er trúarhefð og finnst sem bókstafur í sumum trúarritum. Þá horfum við til þess hvað eigi að vega þyngra. Þá spyr maður: Er það ófrávíkjanleg krafa, að gera þetta við ungbörn? Í sumum trúarbrögðum er þetta ekki ófrávíkjanleg krafa. Í sumum trúarhópum, sem aðhyllast umskurð út frá trúarhefðum — eða hefðum sem hafa ofið sig inn í trúna, sama hvort er — er það ekki ófrávíkjanleg krafa að gera þetta við ómálga sveinbörn. Ungir menn, upp að 18 ára aldri, geta tekið ákvörðun um það sjálfir síðar.

Þá erum við komin að því að sjálfsákvörðunarréttur barna undir 18 ára verður alltaf ríkari og ríkari. Á einhverjum tímapunkti gætum við komist að málefnalegri niðurstöðu um að barnið sé komið á þann stað og til þess þroska að geta tekið meðvitaða, upplýsta ákvörðun um að fara í óafturkræfar breytingar á líkama sínum. Við getum öll verið sammála um að við leyfum slíkt, sama hvort það er að setja göt í eyrun eða víkka þau út eða fá sér tattú, það er víst hægt að taka þau í burtu núna, kannski ekki allt en sumt af því. En því er ekki að heilsa í trúarbók þar sem talað er um sáttmála við guð og á þeim sáttmála grundvallast tilvist og farsæld þess hóps sem á þann sáttmála trúir. Ef sáttmálinn er ekki haldinn mun sá trúarhópur ekki halda áfram farsællega; hann mun ekki uppfylla boðorðið og guð mun ekki uppfylla sáttmála sinn, loforð sitt við trúarhópinn. Þetta er eitthvað sem við verðum að horfa á. Við verðum að átta okkur á að þetta er eitthvað sem ákveðinn trúarhópur horfir til, en vegur það þyngra ef það er óafturkræft?

En spyrjum okkur: Er það óafturkræft? Er það óafturkræft að umskera sveinbörn á áttunda degi til að uppfylla sáttmálann? Við stöndum frammi fyrir því að ákveðnir trúarhópar sem heyra undir þann trúarbókstaf sem uppfylla ekki þann hluta sáttmálans, tala fyrir því að umbreytingar eigi að verða. Það er þarna sem við erum. Vega lög og reglur, eins og þau hafa þróast í vestrænum lýðræðisríkjum og verndun borgararéttinda, þyngra en það? Áður en vestræn lýðræðisríki fóru að þróast þótti trúarbókstafurinn ófrávíkjanlegur en fór svo að víkja fyrir lögum og reglum í ríkjunum. Fyrir okkur hér inni eru grundvallarréttindin mikilvægust, eins og t.d. friðhelgi líkamans. Það eru trúarhópar sem benda á að ekki þurfi að gera þetta svona, að ekki þurfi að umskera, þ.e. trúarbrögð sem aðhyllast þennan trúarbókstaf, við getum gert það öðruvísi. Það er fullt af öðru í trúarbókstafnum sem ekki er verið að uppfylla. Því í trúarbókstafnum er talað um að sáttmálinn við guð, til að tryggja vernd og farsæld, séu 613 ákvæði sem þurfi að uppfylla. Þetta eru ekki bara boðorðin tíu. Ef þú uppfyllir ekki eitt þessara ákvæða skiptir engu hvort þú uppfyllir öll hin eða ekki, þ.e. þú ert búinn að brjóta sáttmálann með því að brjóta eitt ákvæði, sáttmálinn heldur ekki.

Í gegnum tíðina hafa þeir sem hafa aðhyllst það að við eigum að uppfylla þessi 613 skilyrði sáttmálans verið að víkja af þeim vegi. Í dag er enginn af þessum trúarhópum sem krefst þess í vestrænum lýðræðisríkjum að lemja eigi norn með grjóti til bana. Eða ef sonur þeirra er ódæll og óhlýðinn, sem er brot á einu af þessum tíu boðorðum Móse, skuli fara með hann til öldunganna og allir skuli lemja hann með grjóti til bana. Menn hafa vikið frá sáttmálanum. Hvað þá að halda ekki hvíldardaginn heilagan, þá skuli lemja menn með grjóti. Það er löngu búið að víkja frá þessu. Þetta skiptir máli. Það er verið að segja við okkur: Þið getið ekki gert þetta því að þá eruð þið að segja: Við getum ekki búið í ykkar landi því að við erum með ófrávíkjanlegan sáttmála við okkar guð. Það skiptir máli hvort hann sé ófrávíkjanlegur.

Þá erum við komin að öðru: Nei, einn þriðji hluti mannkyns er ekki með óafturkræfan sáttmála við sinn guð um að gera þetta við ómálga sveinbörn. Þá erum við með miklu færri manneskjur. Það hefur líka verið nefnt í umræðunni að þetta séu svo margir. Mér finnst það ekki eiga að vega þungt í umræðunni hve margir gera eitthvað sem við erum ósátt við, eitthvað sem okkur finnst brot á mannréttindum fólks. En það er sjónarmið sem er tekið upp í umræðunni. Það sjónarmið breytist í ljósi þess að þetta eru ekki ófrávíkjanlegar kröfur. Þessir sömu trúarhópar hafa hægt og rólega vikið frá sumum af þessum kröfum út af því að við fórum að færa okkur inn í réttindasamfélagið, færa okkur inn í að búa við borgararéttindi, inn í samfélag þar sem ekki þarf að hafa svona sáttmála til að halda samfélaginu gangandi og halda því saman. Við erum orðin miklu þroskaðri sem samfélag.

Hvað má þetta kosta barnið, það er partur af umræðunni. Hversu mikill má sársaukinn vera? Í umræðunni hefur því verið kastað fram að ekki megi gera samanburð á umskurði kvenna og umskurði drengja, það sé eins og að gera samanburð á umskurði drengja og að setja gat fyrir eyrnarlokka í eyrun á börnunum sínum, óafturkræft gat o.s.frv. Umræðan hefur farið að snúast um hversu sársaukafullt þetta megi vera. Það er ekki hægt að staðdeyfa þessi ungbörn sem verða fyrir þessu. Það skiptir máli. Við vitum í dag að bara það að rassskella börn getur haft trámatískar afleiðingar. Og trámatískar afleiðingar geta haft gríðarlega alvarlegar heilsfufarslegar og sálfræðilegar afleiðingar í lífi barna. Það vitum við. Við verðum að taka tillit til þess.

Hvað má þetta vera sársaukafullt þegar aðgerð á sér stað annars vegar og hins vegar í gegnum lífið, sumir verða fyrir því? Umræðan er komin þangað. Hversu sársaukafullt má þetta vera? Hversu mikið má þetta skerða lífsgæði barnanna? Allt í lagi að gera það við ómálga sveinbörn, það er ekkert jafn sárt eða jafn skerðandi fyrir lífsgæði þeirra og umskurður kvenna? Já, það er stigsmunur. En það er ekki eðlismunur. Það er mikill stigsmunur en ekki eðlismunur. Þetta veldur sársauka, þetta skerðir lífsgæði. Sjálfsákvörðunarrétturinn er tekinn af börnunum.

Þetta er gríðarlega áhugaverð umræða. Ekkert nýtt í sjálfu sér, að menn séu að breyta lagabókstafnum og uppfæra réttindin. Abraham gerði sáttmálann upprunalega við Jahve um að umskera ætti sveinbörn, það væri partur af sáttmálanum. Svo kemur Móses einn góðan veðurdag, fer upp á fjall og kemur niður með nýja stjórnarskrá, meitlaða í stein. Móse var stjórnarskrárgjafi, takið eftir því. Gerði hann það einn? Nei, hann talaði við ættbálk sinn og hlustaði á mismunandi sjónarmið og svoleiðis: Getum við komið okkur saman um eitthvað? Að þetta sé það sem við ætlum að gera? Hann náði að taka þetta saman í tíu atriði, sem væru stóru atriðin. Heiðra skalt þú föður þinn og móður er eitt þeirra atriða, að því viðurlögðu að vera laminn með grjóti til bana. Svo þróast þetta áfram. Síðar þegar menn hafa lifað við þennan sið og farið eftir þessum reglum og þessu lögmáli til að tryggja vernd og sigur í stríðum o.s.frv. og velvilja frá almættinu, þá kemur einhver maður sem er vel lesinn í ritningunni og segist vera búinn að uppfylla lögmálið. Ég get sagt ykkur hvernig þetta er o.s.frv. Fólk fer að fylgja honum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig faríseunum á þeim tíma hefur litist á þá hugmynd. Fram kemur maður sem er farinn að sannfæra fólk um að halda ekki siði og reglur og lögmál, maður sem kemur með nýja túlkun á lögmálinu, sannfærir fólk um að víkja frá því. Það að fylgja lögmálinu var í raun þjóðaröryggisstefna. Það varðar þjóðaröryggi Ísraels, að halda sáttmálann við guð. Það er þjóðaröryggisatriði. Ef við setjum okkur í spor þeirra, hvað það hefur verið umbyltandi að maður eins og Jesús kemur fram og hefur massív áhrif á að fólk hættir að fylgja lögmálinu.

Þetta er gömul saga og ný. Við erum komin á mjög góðan stað með okkar samfélag þegar kemur að réttindavernd. En við getum haldið áfram. Það eru ógnir sem vofa yfir. En í þessu máli, eins og ég hef rakið, hef ég ekki heyrt neitt sem vegur þyngra en grundvallarréttindi barnsins.